Viðskipti innlent

Túristar á Íslandi straujuðu kortin fyrir 26 milljarða króna á þrjátíu dögum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt um 100 milljarða króna með kortum sínum.
Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt um 100 milljarða króna með kortum sínum. Vísir/Pjetur
Í júní síðastliðnum nam erlend greiðslukortavelta tæpum 26 milljörðum króna samanborið við rúmlega 18 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða rúmlega 40 prósent aukningu á milli ára, segir í tilkynningu.

Kortavelta erlendra ferðamanna í júní er sú mesta í einum mánuði frá upphafi en fyrra met var í júlí í fyrra, tæpir 24 milljarðar. Aukning var í erlendri kortaveltu í öllum útgjaldaliðum að meðaltali um 44 prósent á milli ára, samkvæmt tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Töluverð aukning var í kortaveltu ferðamanna í dagvöru og vörðu ferðamenn í júní tæpum milljarði í þann útgjaldalið,  eða rúmlega 68 prósent meira en í sama mánuði í fyrra. Það sem að af er ári hafa ferðamenn varið rúmlega 11,6 milljörðum í verslun á Íslandi, sem að er rúmlega 3 milljörðum meira en fyrir sama tímabil í fyrra.

Kortavelta ferðamanna í flugferðum rúmlega tvöfaldaðast á milli ára, áttunda mánuðinn í röð og var vöxturinn í júní um 105 prósent á milli ára. Rétt er að taka það fram að hluti þeirrar greiðslukortaveltu sem fellur undir liðinn er greiðsla fyrir þjónustu sem innt er af hendi utan landsteinanna.

Ferðamenn vörðu í júní rúmlega fimm milljörðum í gistiþjónustu, eða um 34 prósent meira en á sama tíma í fyrra. Ferðamenn sækja enn meira í tónleika, viðburði, leik- og kvikmyndahús og var kortavelta ferðamanna 84 prósent meiri en í júní í fyrra.

Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt um 100 milljarða króna með kortum sínum, mest í flugferðir eða um 19 milljarða, gistiþjónustu tæplega 18 milljarða og 11,6 milljarða króna í verslun. Í júní komu um 187 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 36,8 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×