Axel Bóasson, kylfingur úr GK, er með eins högga forskot á Gísla Sveinbergsson fyrir lokahringinn á Borgunarmótinu á Eimskipsmótaröðinni sem fer fram um helgina.
Mótið er fyrsta mótið í „final four“ úrslitakeppninni sem er nýjung á Eimskipsmótaröðinni 2016 en leikið er um Hvaleyrarbikarinn.
Axel byrjaði daginn vel og var á fjórum höggum undir pari eftir sex holur en því fylgdi skolli á sjöundu holunni.
Honum tókst að krækja í tvo fugla á seinni níu ásamt aðeins einum skolla og lauk því leik á fjórum höggum undir pari.
Hinn 18 ára gamli Gísli Sveinbergsson er aðeins einu höggi á eftir Axeli en hann lék hringinn í dag á tveimur höggum undir pari og lauk leik skollalaus.
Næstir koma þeir Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG á þremur höggum undir pari og Ólafur Björn Loftsson, GKG á tveimur höggum undir pari fyrir lokadaginn sem fer fram á morgun.
Axel leiðir fyrir lokahringinn