Þótt KR hafi skorað fæst mörk allra liða í Pepsi-deildinni á liðið ekki í neinum vandræðum með að skora í Evrópudeildinni.
Það sýndu KR-ingar svo sannarlega í kvöld þegar þeir gerðu 3-3 jafntefli við svissneska liðið Grasshopper á heimavelli sínum í Vesturbænum.
KR er því búið að skora 11 mörk í þremur leikjum í Evrópudeildinni í sumar en liðið gerði samtals átta mörk gegn norður-írska liðinu Glenavon í síðustu umferð.
Það blés ekki byrlega fyrir KR-inga í hálfleik, enda tveimur mörkum undir. Ridge Munsy kom Grasshopper yfir á 18. mínútu og 10 mínútum fyrir hálfleik bætti Nikola Gjorgjev öðru marki við eftir undirbúnings Rúnars Más Sigurjónssonar sem lék sinn fyrsta mótsleik fyrir svissneska liðið í kvöld.
En KR-ingar gáfust ekki upp og Morten Beck Andersen, sem kom inn á í leikhléi, jafnaði metin með tveimur mörkum í upphafi seinni hálfleiks. Andersen á enn eftir að skora í Pepsi-deildinni en er kominn með þrjú mörk í Evrópudeildinni.
Sjá einnig: Andersen ekkert fúll út í Óskar: Mig langaði samt rosalega að taka vítið
Caio kom gestunum aftur yfir á 59. mínútu en Óskar Örn Hauksson jafnaði metin í 3-3 með marki úr vítaspyrnu á 77. mínútu og þar við sat.
Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.
