Okkur er nokkuð tíðrætt um lága vatnsstöðu í ánum og hversu illa laxinn vill taka við þær aðstæður en þetta ástand dregur stundum fram annað og verra.
Við höfum fengið í það minnsta þrjár staðfestingar, og það er alveg pottþétt að tilfellin eru fleiri, þar sem veiðimenn hafa fundið leyfar af nýjum ánamaðki við veiðistaði í ám þar sem eingöngu má veiða á flugu. Það sem meira er er að þetta virðist algjörlega bundið við Íslenska veiðimenn því þegar erlendir gestir laxveiðiánna fá veður af því að menn sé að brjóta reglurnar með þessum hætti eiga þeir ekki orð til að lýsa vanþóknun sinni á þessum gjörning.
Það er í raun alveg óskiljanlegt af hverju veiðimenn grípa í þetta örþrifaráð þó taka sé léleg eða vatnsstaðan lág. Það má helst líkja þessu þannig að viðkomandi veiðimaður líti á það þannig að fyrst hann sé búinn að kaupa leyfi og takan sé léleg eigi hann ákveðna heimtingu eða rétt á að brúka hvaða áhald sem er til að tryggja það að hann komi nú örugglega heim með lax. Ef hugarástandið er þannig er mun auðveldara að koma við í næstu fiskbúð heldur en að koma svona fram.
Veiði er sport, hún er upp og ofan með öllum þeim veðrabrigðum og breytingum á aðstæðum sem geta gert hvern mann gráhærðan en sannur veiðimaður lítur á slíkt sem áskorun og eins með ró í huga. Stundum er veiðin góð, stundum er veiðin léleg en það er ekkert sem afsakar brot á reglum við árnar hvort sem það er að nota maðk í leyfisleysi, spún eða virða ekki svæðisskiptingar.
Það er gaman að veiða á maðk. Undirritaður gerir það sjálfur árlega í ám þar sem það er leyft og það má þess vegna benda veiðimönnum á sem finnst gaman að veiða á maðk samhliða flugu að sækja í árnar sem leyfa fjölbreytt agn. Bretarnir lýsa þessu ágætlega á sinn hátt sem flestir skilja en ágætur veiðimaður frá Bretlandi sagði við tækifæri þegar honum barst til eyrna brot Íslensks veiðimanns við á þar sem hann var við veiðar, "You lack the sense of a proper gentlemans behaviour" sem lauslega gæti verið þýtt "ykkur skortir sanna heiðursmanna framkomu".
Það skal þó tekið fram að þetta er algjör undantekning frá þeim fjölda Íslenskra veiðimanna sem stunda veiðar við laxveiðiár með drengskap og framkomu sem hæfir heiðursmönnum sem þeir eru, það er þess vegna leiðinlegt eins og alltaf þegar fá rotin epli skemma tunnuna.
