Skotland átti ekki í teljandi vandræðum með að pakka smáliði Möltu saman, 5-1, í fyrsta leik liðanna í F-riðli undankeppni HM 2018.
Robert Snodgrass, leikmaður Hull í ensku úrvalsdeildinni, kom Skotlandi yfir á níundu mínútu en Maltverjar jöfnuðu reyndar metin fjórum mínútum síðar með marki Alfred Effiong, 1-1.
Þannig var staðan í hálfleik en Chris Martin kom Skotum svo aftur í forystu, 2-1, á 53. mínútu og sjö mínútum síðar kom vendipunktur leiksins.
Jonathan Caruana, varnarmaður Möltu, var rekinn af velli þegar hann gaf vítaspyrnu en úr henni skoraði Snodgrass annað mark sitt í leiknum, 3-1.
Steven Fletcher kom Skotlandi í 4-1 á 78. mínútú áður en Snodgrass, sem skoraði sigurmark Hull gegn Leicester á dögunum, fullkomnaði þrennuna sex mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Lokatölur, 5-1.
Skotar eru á toppi riðilsins með þrjú stig líkt og England sem marði Slóvakíu fyrr í dag en hefur betri markatölu. Litháen og Slóvenía skildu jöfn, 2-2, í sama riðli.
Í E-riðli gerðu Rúmenía og Svartfjallaland 1-1 jafntefli. Eftir markalausar 85 mínútur kom Adrian Popa, leikmaður Steaua Búkarest, heimamönnum yfir, 1-0, og virtist vera að tryggja Rúmeníu sigurinn.
En Stevan Jovetic, fyrrverandi leikmaður Manchester City, bjargaði stigi fyrir Svartfellinga með marki tveimur mínútum síðar, 1-1.
Í sama riðli vann Danmörk sigur á Armeníu, 1-0, og Kasakstan og Pólland skildu jöfn, 2-2.
Snodgrass með þrennu í stórsigri Skota | Jovetic bjargaði stigi í Rúmeníu

Tengdar fréttir

Eriksen skoraði og brenndi af víti í sigri Dana | Myndband
Sjáðu markið og vítaklúðrið hjá Christian Eriksen í sigri Dana gegn Armenum.

Pólverjar misstu niður 2-0 forskot gegn Kasakstan á sjö mínútum
Afar óvænt úrslit litu dagsins ljós í E-riðli undankeppni HM 2018 þar sem Kasakstan hirti stig af Póllandi.

Norðmenn engin fyrirstaða fyrir heimsmeistarana
Þjóðverjar byrja undankeppni HM 2018 af miklum krafti en þeir rúlluðu yfir Norðmenn, 0-3, á Ullevaal vellinum í Osló í kvöld.

Lallana tryggði Englandi sigurinn í fyrsta leik Stóra Sams | Sjáðu markið og rauða spjaldið
Adam Lallana tryggði Englandi 0-1 sigur á Slóvakíu í fyrsta leik liðsins undir stjórn Sams Allardyce.