Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, var svekktur með tapið fyrir Skotlandi í kvöld en sagði það ekki skyggja á frábæra frammistöðu Íslands í undankeppni EM 2017.
„Við unnum þennan riðil og spiluðum heilt yfir hrikalega vel. En maður er keppnismaður og vill vinna,“ sagði Freyr sem var óánægður með frammistöðu Íslands í fyrri hálfleik.
„Ég er ósáttur með að við byrjuðum leikinn svona illa og áttum svona lélegan kafla í fyrri hálfleik. Þær stjórnuðu ferðinni fyrstu 25 mínúturnar en við náðum smá takti undir lok fyrri hálfleiks.
„Síðustu 30-35 mínúturnar erum við svo algjörlega með leikinn en náðum ekki ógna þeim nægilega vel. Þær fengu svo skyndisóknir og skutu í slá og stöng. Þetta var hörku fótboltaleikur.“
Þrátt fyrir tapið í kvöld kveðst Freyr heilt yfir mjög ánægður með frammistöðu Íslands í undankeppninni.
„Þetta er mót, við erum komin á EM og ég er sáttur við það,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
Nánar verður rætt við Frey í Fréttablaðinu á morgun.
