Ævintýri Dundalk ætlar engan endi að taka en írskum fjölmiðlum fannst nógu merkilegt að liðið hefði unnið Íslandsmeistara FH í forkeppninni og gerðu mikið úr því eins og Vísir fjallaði um í sumar.
Eftir sigurinn á FH vann Dundalk Íslandsvinina í BATE Borisov og komst þannig í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar gegn Legía Varsjá. Sama hvað gerðist þar var liðið öruggt með sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þangað sem Dundalk fór eftir tap gegn pólska liðinu.

Dundalk er búið að græða á tá og fingri og má hæglega fullyrða að liðið er orðið það langríkasta á Írlandi. Það nálgast nú einn milljarð króna í tekjur vegna árangurs í forkeppni Meistaradeildarinnar og riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Dundalk fékk 300.000 Evrur eða 39 milljónir króna á núvirði fyrir sigurinn á FH og 51 milljón króna fyrir að leggja BATE. Þá var írska liðið komið í gullpottinn því þó það tapaði fyrir Legía Varsjá fá liðin sem tapa í umspili Meistaradeildarinnar þrjár milljónir evra eða 385 milljónir króna.
Írska félagið fékk svo aðrar 2.400.000 milljónir evra fyrir að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eða 308 milljónir króna. Fyrir það eitt að komast þessa leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fékk Dundalk 783 milljónir króna.

Dundalk náði í stig á útivelli gegn AZ Alkmaar í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en það var fyrsta stigið sem írskt lið fær í riðlakeppninni í sögunni. Stig í riðlakeppni Evrópudeildarinnar gefur 120.000 evrur eða fimmtán milljónir króna.
Í gær hafði liðið svo betur gegn Maccabi Tel Avic og fékk fyrir það 360.000 evrur eða 46 milljónir króna. Leikurinn gat ekki einu sinni farið fram á heimavelli Dundalk því hann stenst ekki kröfur UEFA. Liðið hefur spilað á Tallaght-leikvanginum í Dyflinni.
Í heildina er Dundalk búið að fá 844 milljónir í verðlaunafé og getur liðið haldið áfram að safna í kassann. Fjórir leikir eru eftir í riðlinum en fyrir sigur í sínum riðli fær Dundalk 64 milljónir króna og 32 milljónir fást fyrir annað sætið. Aðrar 64 milljónir fást fyrir að komast í 32 liða úrslitin.
KR var eina liðið sem vann Evrópueinvígi í sumar en FH, Valur og Breiðablik féllu á fyrstu hindrun.