Afturelding tyllti sér á topp Olís-deildar karla í handbolta í dag á nýjan leik með 27-22 sigri á Stjörnunni á útivelli í hörkuleik.
Upplýsingar af gangi leiksins voru fengnar af mbl.is
Staðan var jöfn í hálfleik 13-13 en Afturelding reyndist sterkari aðilinn á lokasprettinum eftir jafnan leik framan af seinni hálfleik.
Birkir Benediktsson var markahæstur í liði Aftureldingar með 7 mörk. Elvar Ásgeirsson sem fékk að líta rauða spjaldið snemma í seinni hálfleik skoraði 4 mörk líkt og Kristinn Hrannar Elísberg Bjarkason.
Ari Magnús Þorgeirsson skoraði mest fyrir Stjörnuna, 7 mörk. Garðar Benedikt Sigurjónsson skoraði 5. Stjarnan er í fimmta sæti deildarinnar, fjórum stigum frá toppliði Aftureldingar.

