Sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson hefur tilkynnt að þrjú þúsund starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum. Í tilkynningu frá félaginu er ný sparnaðaráætlun kynnt og segir að flestum þeim sem verður sagt upp, starfi á starfstöðvum félagsins í Kumla og Borås.
Alls starfa um 16 þúsund manns hjá fyrirtækinu í Svíþjóð og liggur því fyrir að tæplega fimmti hver starfsmaður hefur fengið uppsagnarbréf í dag.
Í yfirlýsingunni segir að Ericsson muni leggja aukinn kraft í rannsóknir og þróun þar sem starfstöðvar Ericsson í Svíþjóð munu skipa mikilvægan sess.
Í frétt Aftonbladet segir að þúsund þeirra sem verður sagt upp starfi innan framleiðslu, 800 innan rannsóknar- og þróunardeildar og 1.200 innan annarra deilda. Til viðbótar hefur 900 manns innan þjónustudeildar fyrirtækisins verið sagt upp.
Ericsson í Svíþjóð segir upp þrjú þúsund manns