Real Madrid vann 6-1 sigur á Real Betis á heimavelli þeirra síðarnefndu í Sevilla í dag. Stórliðin þrjú, Barcelona, Atletico og Real unnu öll risasigra í dag.
Það var ljóst strax í upphafi í hvað stefndi. Raphael Varane kom gestunum yfir strax á 4.mínútu leiksins og á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks bættu leikmenn Real við þremur mörkum til viðbótar.
Fyrst skoraði Karim Benzema mark af stuttu færi og þeir Marcelo og Isco komu boltanum í netið áður en flautað var til háfleiks.
Alvaro Cejudo minnkaði muninn fyrir Betis í upphafi síðari hálfleiks en Isco skoraði annað mark sitt og fimmta mark Real á 62.mínútu með frábæru skoti úr teignum.
Það var svo að sjálfsögðu Cristiano Ronaldo sem setti punktinn yfir i-ið þegar hann slapp í gegnum vörn heimamanna og skoraði af öryggi. 6-1 urðu lokatölurnar og Real því með jafnmörg stig og nágrannar sínir í Atletico en Madridarliðin eru í tveimur efstu sætum deildarinnar.
