Kólumbía og Úrúgvæ skildu jöfn, 2-2, í stórleik í undankeppni Suður-Ameríku fyrir HM 2018 í gærkvöldi en Yerry Mina bjargaði stigi fyrir heimamenn sex mínútum fyrir leikslok.
Abel Aguilar kom Kólumbíu yfir á 15. mínútu en Cristian Rodríguez jafnaði metin tólf mínútum síðar og á 73. mínútu kom Luis Suárez gestunum frá Úrúgvæ yfir.
Þetta var sögulegt mark hjá Suárez því hann jafnaði met Hernán Crespo, fyrrverandi landsliðsframherja Argentínu, yfir flest mörk í sögu undankeppni HM í Suður-Ameríku. Suárez er nú búinn að skora 19 mörk líkt og Argentínumaðurinn.
Crespo skoraði mörkin sín 19 í 33 leikjum en Suárez tók sér 41 leik í að jafna metið. Það má þó nánast bóka það, að Suárez verði markahæstur í sögunni og rúmlega það en framherjinn á nóg eftir og skorar nánast þegar honum dettur það í hug.
Argentínumenn eru í smá basli í undankeppninni en þeir töpuðu á heimavelli gegn Paragvæ, 1-0, í nótt. Derlis Gonzalez skoraði eina mark gestanna en Sergio Agüero, framherji Argentínu, lét verja frá sér vítaspyrnu.
Argentína er í fimmta sæti undankeppninnar með 16 stig en fjögur efstu liðin fara beint á HM í Rússlandi og liðið í fimmta sæti fer í umspil. Enn þá eru átta umferðir eftir og Argentína er aðeins stigi á eftir Kólumbíu og Ekvador.
Brasilíumenn tróna á toppi riðilsins með 21 stig og Úrúgvæ er í öðru sæti með 20 stig eftir jafnteflið gegn Kólumbíu. Síle vann mikilvægan 2-1 sigur á Perú í nótt og lagaði aðeins stöðu sína en liðið er í 7. sæti með fjórtán stig.
Suárez jafnaði met en Agüero lét verja frá sér vítaspyrnu
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið

Glórulaus tækling Gylfa Þórs
Íslenski boltinn




„Bæði svekktur en líka stoltur“
Íslenski boltinn

„Góðir leikmenn sem taka góðar ákvarðanir“
Körfubolti

„Hefðum þurft tvö til þrjú stemningsskot“
Körfubolti

„Aldrei séð annan eins mun á villufjölda“
Körfubolti


„Verðum bara að vona það besta en undirbúa okkur fyrir það versta“
Íslenski boltinn