Hólmfríður Magnúsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og stöllur þeirra í norska úrvalsdeildarliðinu Avaldsles eiga enn möguleika á norska meistaratitlinum eftir úrslitin í næst síðustu umferðinni sem var spiluð í heild sinni í dag.
Avaldsnes var fjórum stigum á eftir meisturum Lilleström fyrir daginn en vann 1-0 sigur á Sandviken á útivelli á meðan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og stöllur hennar í Stabæk gerðu 2-2 jafntefli við Lilleström á heimavelli sínum.
Gunnhildur, Hólmfríður og Þórunn Helga voru allar í byrjunarliðinu hjá sínum liðum eins og vanalega en þetta jafntefli Lilleström heldur titildraumum Avaldsnes á lífi fram í lokaumferðina.
Lilleström er á toppnum með 57 stig en Avaldsnes með 55 stig. Meistararnir mæta Sandviken í lokaumferðinni en Avaldsnes á leik gegn Gunnhildi og Stabæk-liðinu.
Fyrir jafnteflið í dag var Lilleström búið að vinna tólf leiki í röð en þetta er aðeins þriðji leikurinn af 21 sem liðið vinnur ekki. Það er með 18 sigra og þrjú jafntefli en ekkert tap á toppnum en gæti samt misst af titlinum í lokaumferðinni til Avaldsnes.
Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn fyrir Wolfsburg sem gerði markalaust jafntefli við Frankfurt á heimavelli sínum, AOK Stadion, í þýsku úrvalsdeildinni.
Wolfsburg er í 3. sæti deildarinnar með 14 stig eftir sex umferðir. Freiburg er með jafn mörg stig en betri markatölu í 2. sæti og á toppnum situr Potsdam með 15 stig.
Sara hefur leikið alla leiki Wolfsburg það sem af er tímabili.
Gunnhildur hélt titildraumum Hólmfríðar og Þórunnar á lífi
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið



„Þetta var hið fullkomna kvöld“
Fótbolti

„Þetta er ekki búið“
Fótbolti

Meistaradeildardraumur Forest að breytast í martröð
Enski boltinn



Gísli Þorgeir skaut Magdeburg áfram
Handbolti

