Dans
Shades of History
Höfundur og dansari: Katrín Gunnarsdóttir
Leikmynd og búningur: Eva Signý Berger
Ljósahönnun: Magnús Arnar Sigurðarson
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon
Dramatúrgísk ráðgjöf: Alexander Roberts og Ásgerður G. Gunnarsdóttir
Aðstoðardanshöfundur: Védís Kjartansdóttir
Dansverk Katrínar, Shades of History sem nú er sýnt í Tjarnarbíói, er framhald af verki hennar, sem hún sýndi í fyrra undir heitinu Saving History.
Þar leitaði Katrín að uppruna sínum í dansi og fjallaði um hvað hefur mótað stíl hennar og haft áhrif á hana sem dansara og danshöfund. Hvernig verður líkamsminnið til, líkamsminnið sem er einstakt fyrir hana – þróast en gleymist seint?
Í Shades of History tekur Katrín okkur í gegnum danssögu sína með einni heilsteyptri kóreógrafíu. Ekki er hægt að sjá hvar upphaf og endir hverrar hreyfingar varð til í hennar líkamsminni heldur einungis hvað hefur setið eftir í þeim orðaforða sem hún nýtir sér í dag.
Katrín fer með okkur í tímaflakk þar sem hún hoppar á milli tímabila með okkur. Þetta gerir hún í sviðsmynd sem hæfir verkinu einstaklega vel!
Sviðsmyndin er hringlaga spegill sem Katrín dansar ofan á – þannig fær maður bæði spegilmynd hennar eða endurspeglun á hennar fyrra sjálfi – henni eins og dansarinn sem hún var og þróaðist í. Hún sýnir okkar líkamsminnin sín, hvert af öðru.
Svo notar hún hringinn sem ferðalag og spólar þannig með okkur í gegnum tíma.
Spegillinn er samansettur með hringlaga röndum – svo sviðsmyndin líkist voldugum tjástofni með árhringjum, einn hringur fyrir hvert tímaskeið.
Allir þættir verksins unnu vel saman. Sviðsmynd og hugmynd var unnið í einni dramatúrgíu sem gefur verkinu þétta heild og gefur áhorfandanum rými til að túlka verkið frá mörgum hliðum.
Hljóðmynd verksins er sama sem engin – sem er virkilega krefjandi fyrir áhorfandann. En hreyfingarnar eru með þeim hætti að þær láta áhorfandann ekki friði, þær krefjast athygli. Hvergi dettur takturinn niður, þvert á móti. Þessi heilsteypta framvinda gefur tilfinningu fyrir framvindu tímans sem ekkert fær stöðvað. Ekkert fær heldur stöðvað hreyfingarnar á sviðinu og tíminn einn er fær um að veita möguleika á aukinni færni í líkamsmálinu.
Með þessum góða takti í kóreógrafíunni fer að myndast náttúruleg hljóðmynd líkamans. Andardráttur flytjandans verður það eina sem heyrist í rýminu og með takti hreyfinganna myndast þessi náttúrulega hljóðmynd verksins. Sem með ótrúlegu næmi var ýtt undir á nokkrum stöðum en þó svo undurlétt að auðvelt var fyrir áhorfandann að vefengja að hann heyrði hljómfallið í raun.
Lýsing verksins var ótrúlega vel unnin og falleg í einfaldleika sínum. Hvergi mátti sjá afgerandi skiptingar í lýsingu sem var þó skemmtilega fjölbreytt og fylgdi vel framþróun verksins. Á einum tímapunkti mynduðust til dæmis skuggar flytjandans á hvítt tjald fyrir aftan sviðið. Skuggarnir voru í mismunandi stærðum og misnálægt manni í upplifun. Það er aftur skýr tenging inn í brú verksins þar sem maður sér einhvers konar hliðarsjálf flytjandans – eða minningar um það sem hinn sami líkami hefur gert áður.
Verkið var í mjög hæfilegri lengd og tók áhorfandann með sér nánast inn í draumleiðslu þó svo að einnig hafi verið mikið til að meðtaka.
Niðurstaða: Öll framsetningin var eins og góður konfektmoli sem búið var að nostra við.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember.
