Þá hefur verðlaunafé aldrei verið meira. Samtals verða greiddar út 67,35 milljónir Bandaríkjadala á næsta keppnistímabili (jafnvirði 7,4 milljarða króna) og er um 4,35 milljóna dollara aukningu að ræða.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vann sér inn um helgina keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni í golfi með því að hafna í öðru sæti á lokaúrtökumótinu sem fór fram á Daytona Beach í Flórída.
NICE ONE!!@olafiakri#LPGAbound
— Rosie Davies (@rosiedavies10) December 5, 2016
Fyrir ári síðan vann Ólafía Þórunn sér inn þátttökurétt á Evrópumótaröðinni í golfi. Hún tók þátt í níu mótum á síðasta tímabili og varð í 96. sæti peningalistans, sem dugði ekki til að endurnýja keppnisrétt sinn fyrir næsta ár.
Það kemur þó ekki að sök þar sem að hún hefur nú aðgang að stærstu mótaröð í heimi, þeirri bandarísku.
Mikill munur á tekjum
Eins og Karen Sævarsdóttir benti á í samtali við Vísi fyrr í dag er talsverður munur á LPGA-mótaröðinni og þeirri evrópsku.
Sjá einnig: Karen: Mikill munur á Evrópumótaröðinni og LPGA
Sem dæmi má nefna að langtekjuhæsti kylfingurinn á Evrópumótaröðinni, hin bandaríska Beth Allen, vann sér inn 311 þúsund evrur (jafnvirði 37 milljóna króna) á nýliðnu tímabili.
Þrátt fyrir að Allen hafi verið nánast tvöfalt tekjuhætti en næsti kylfingur á eftir henni voru 58 kylfingar á LPGA-mótaröðinni tekjuhærri en Allen.
Alls voru fimmtán kylfingar á LPGA-mótaröðinni með meira en eina milljón Bandaríkjadala í tekjur á síðasta tímabili og sú tekjuhæsta, Ariya Jutanugarn frá Tælandi, fékk rúma 2,5 milljónir dollara í sinn hlut (jafnvirði 281 milljóna króna) eða rúmlega sjöfalt meira en Allen fékk á Evrópumótaröðinni.

Það sést líka greinilega á heimslistanum að sterkustu keppendur heims eru á LPGA-mótaröðinni. Allen til að mynda í 63. sæti heimslistans í golfi þrátt fyrir yfirburðaárangur á Evrópumótaröðinni.
Allen keppti einnig á úrtökumótinu um helgina, með Ólafíu Þórunni, og hafnaði í 6.-7. sæti. Hún mun því keppa á bandarísku mótaröðinni á næsta keppnistímabili.
Sjá einnig: Stelpan sem vann Ólafíu var að vinna í annað sinn | Sjáðu sigurpúttið
Nýtt tímabil á LPGA-mótaröðinni hefst í lok janúar á Pure Silk-mótinu á Bahamaeyjum. Afar líklegt verður að teljast að Ólafía Þórunn fái þar keppnisrétt þó svo að það hafi ekki enn verið staðfest.
Verðlaunafé á því móti verður 1,4 milljónir Bandaríkjadala en til að fá peningaverðlaun á mótinu þarf að vera í hópi þeirra 80 kylfinga sem komast í gegnum niðurskurðinn. Alls tóku 108 kylfingar þátt í mótinu í fyrra.