Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í 3. sæti eftir fyrstu þrjá keppnisdagana á lokaúrtökumótinu fyrir LPGA mótaröðina í golfi.
Ólafía lék einstaklega vel á Hills vellinum í dag, eða á fimm höggum undir pari. Hún er samtals á níu höggum undir pari.
„Mér líður mjög vel, ég hef náð að halda mér í „núinu“ og vera þolinmóð. Ég er að ná þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir mótið og ég þarf að halda áfram að vera andlega sterk,“ sagði Ólafía Þórunn í samtali við golf.is í kvöld.
„Það er mikilvægast. Það voru hættulega mörg pútt sem voru nálægt því að fara ofaní en ég var með 25 pútt í dag,“ bætti Íslandsmeistarinn við.
Tuttugu efstu á mótinu tryggja sér þátttökurétt á mótaröðinni sem er sú sterkasta í kvennagolfinu.
Fylgst verður með framgöngu Ólafíu í beinni textalýsingu á Vísi á morgun.
