Karlalandsliðið í fótbolta var kjörið lið ársins 2016 af Samtökum íþróttafréttamanna en kjörið var tilkynnt í kvöld við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu.
Þetta er annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem karlalandsliðið í fótbolta er valið lið ársins.
Fótboltalandslið karla hafði betur í baráttu við kvennalandsliðið í fótbolta og karlalandsliðið í körfubolta sem voru einnig tilnefnd eftir að hafa lent í þremur efstu sætunum í kjöri meðlima Samtaka íþróttafréttamanna.
Íslenska landsliðið hefur aldrei átt betra ár en 2016. Liðið sló í gegn á heimsvísu á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar en það var fyrsta stórmót karlalandsliðsins frá upphafi. Liðið endaði síðan árið í 21. sæti á heimslista FIFA og hefur aldrei verið ofar.
Íslensku strákarnir sendu Englendinga heim af EM í Frakklandi í júní og komust alla leið í átta liða úrslit keppninnar þar sem liðið varð að sætta sig við tap á móti gestgjöfum og verðandi silfurliði Frakka.
Íslenska liðið tapaði aðeins einum af fimm leikjum sínum í keppninni og skoraði alls átta mörk á mótinu. Það voru aðeins þrjú landslið á mótinu sem skoruðu fleiri mörk að meðaltali í leik eða Frakkland, Belgía og Wales.
Íslenska landsliðið hóf árið í 36. sæti á heimslista og hækkaði sig því um fimmtán sæti á árinu. Liðið endar árið langt fyrir ofan allar Norðurlandaþjóðirnar og jafnframt er Ísland ofar en Holland á FIFA-listanum.
Íslenska landsliðið setti líka nýtt met með því að spila alls sautján A-landsleiki á árinu, níu keppnisleiki og átta vináttulandsleiki. Gamla metið voru 13 leikir árið 1988. Miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson spilaði flesta leiki á árinu eða 15 sem er einnig nýtt met.
Lið ársins 2012-2016
Á fundi Samtaka íþróttafréttamanna þann 14. desember 2012 var samþykkt breyting á reglugerð fyrir kjör íþróttamanns ársins til að bæta við kosningu á liði ársins. Gjaldgeng eru lið, hvort sem er landslið eða félagslið, sem keppa í íþróttum sem eiga aðild að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
2012 - Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum
2013 - Karlalandslið Íslands í fótbolta
2014 - Karlalandslið Íslands í körfubolta
2015 - Karlalandslið Íslands í fótbolta
2016 - Karlalandslið Íslands í fótbolta
