Körfubolti

Frábær leikur Söru dugði ekki í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir.
Sara Rún Hinriksdóttir. Vísir/Stefán
Íslenska körfuboltakonan Sara Rún Hinriksdóttir átti sinn besta leik á háskólaferlinum í nótt en því miður dugði það ekki til sigurs.

Canisius varð að sætta sig við 77-68 tap á móti sterku liði Morehead og hefur Íslendingaliðið þar með tapað 8 af fyrstu 10 leikjum tímabilsins.

Sara Rún, sem kemur frá Keflavík, gerði svo sannarlega sitt til þess að hjálpa sínu liði í þessum leik. Sara var með 29 stig, 9 fráköst og 2 stoðsendingar á 34 mínútum.

Sara Rún hitti úr 13 af 18 skotum sínum utan af velli þar á meðal eina þriggja stiga skotinu sínu.







Margrét Rósa Hálfdanardóttir var með 9 stig en hún gaf flestar stoðsendingar í liðinu eða 9 talsins og tapaði auk þess bara einum bolta á þeim 35 mínútum sem hún spilaði.

Sara Rún skoraði fjórar af körfum sínum í leiknum eftir stoðsendingu frá Margréti Rósu og Sara átti einnig eina stoðsendingu á Margréti.

Íslensku stelpurnar spiluðu mest í Canisius-liðinu og voru efstar hjá liðinu í stigum (Sara), fráköstum (Sara), stoðsendingum (Margrét) og vörðum skotum (Sara).

Sara Rún Hinriksdóttir er með 15,5 stig,  5,2 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu til þessa en þetta er hennar annað ár í skólanum.  Margrét Rósa Hálfdanardóttir, sem er á sínu þriðja ári í skólanum er með 9,1 stig, 2,4 fráköst og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×