Svarið liggur í kalkúninum Sif Sigmarsdóttir skrifar 31. desember 2016 07:00 Gamlársdagur. Við stöndum með hælana skorðaða í fortíðinni en teygjum tærnar vongóð inn í framtíðina – við lítum um öxl samtímis því að horfa fram á veginn. En gefur árið 2016 tilefni til að líta 2017 björtum augum? Árið 2016 var árið sem allt snerist á haus. Góða fólkið varð vonda fólkið. Illkvittna fólkið sem vildi sökkva fósturjörðum sínum í flóttamönnum og manngæsku varð mesta meinsemd samtímans. Á sama tíma og góða fólkið varð vont varð góðæri aftur gott. Orðskrifli sem hafði verið skammaryrði frá hruni fékk uppreisn æru. Viðskipti urðu aftur að trúarbrögðum, kauphöllin musteri og upprisinn útrásarvíkingur fannst með aðstoð jólastjörnunnar Nova, blossastjörnu sem sprakk eins og slíkar stjörnur gera af svo miklum krafti að birta hennar jókst hundraðþúsundfalt á andartaki – eða eins og það er nefnt á viðskiptamáli: fjárfestingin fjórfaldaðist frá stofnun fyrirtækisins árið 2007. Árið 2016 urðu túristar eins og tóbak – við tókum þá í nefið. Árið 2016 var árið sem við hættum við að spyrja „how do you like Iceland“? Ferðamenn hættu að vera manneskjur og urðu auðlind, okkar að nýta sem okkur sýndist. Þá skyldi virkja, í þá bora eins og olíulind, veiða þá í túristagildrur eins og fiska í net, mergsjúga þá og blóðmjólka uns við urðum bústin eins og troðnar botnvörpur, þeir skorpnir eins og skreið. „Má ég fá vatnssopa?“ „Nei, það er hættulegt að drekka úr íslenskum krönum. En fyrir litlar fjögurhundruð krónur færðu þessa vatnsflösku.“Eins og konfekt Árið 2016 var árið sem sannleikurinn leið undir lok. Innihald orða tók að snúast um magn fremur en gæði – væri eitthvað sagt nógu oft varð það satt: Barack Obama er stofnandi hryðjuverkasamtakanna ISIS. Hillary Clinton bakkar yfir hvolpa í frítíma sínum. Fréttamenn RÚV eru eðlur af elítuætt utan úr geimnum sem sendar voru til jarðar til að fella Framsóknarflokkinn. „En það er ekki satt?“ „Það skiptir ekki máli. Sannleikurinn er eins og konfekt. Maður velur sér mola eftir smekk.“Undir felldu yfirborði Árið 2016 var ár nostalgíunnar. Okkur lengdi eftir meintum einfaldleika fortíðar, sakleysi liðinna tíma, ylhýrum faðmi einangrunarinnar. „Muniði þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og maður kveikti á kertum þegar rafmagnið fór?“ Bretar kusu burt pólska pípara í þjóðaratkvæðagreiðslu í von um að endurvekja tímann þegar konur gengu í síðkjólum, karlmenn skörtuðu pípuhöttum og meðfæddum yfirburðum, fólk bjó í krúttlegum kotum með stráþökum, Doc Martin sótti sjúklinga heim, lögregluforingjarnir Morse og Poirot gættu öryggis fólks og Hyacinth Bucket bar fram te. Bandaríkjamenn úthýstu rökhyggjunni. Þeir kusu sér vegg sem var jafnlangur færiböndunum í Ford verksmiðjunni á þeim tímum þegar karlar störfuðu blístrandi við að púsla saman framtíðinni en skildu hana svo eftir í vinnunni og fóru heim til brosandi eiginkvenna með svuntu, rúllur í hárinu og steik á diski. En undir felldu yfirborði nostalgíunnar – rétt eins og undir síðkjólunum í Downton Abbey – leynist korselett. Árið 2016 gleymdum við kæfandi fjötrum fortíðar. Er við létum okkur dreyma um slétt andlit æskuáranna hunsuðum við tilvist graftargulra unglingabóla.Sagan af kalkúninum Gefur árið 2016 tilefni til að líta 2017 björtum augum? Svarið liggur í safaríkum kalkúninum sem svo mörg okkar munu leggja sér til munns í kvöld. Einu sinni var kalkúnn. Á hverjum morgni opnaði góðlátlegur fulltrúi mannkynsins búrið hans og fóðraði hann. En svo rann upp gamlársdagur. Ef eitthvað hefði verið að marka fortíðina hefði hann einfaldlega fengið að borða þennan morgun eins og aðra. En í staðinn varð kalkúnninn höfðinu styttri. Svarið er afdráttarlaust. Já. Við megum vera bjartsýn. Því fortíðin segir ekkert til um hvað framtíðin ber í skauti sér. Kæru lesendur, hafið þakkir fyrir samfylgdina á árinu. Stórt læk á ykkur öll. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Gamlársdagur. Við stöndum með hælana skorðaða í fortíðinni en teygjum tærnar vongóð inn í framtíðina – við lítum um öxl samtímis því að horfa fram á veginn. En gefur árið 2016 tilefni til að líta 2017 björtum augum? Árið 2016 var árið sem allt snerist á haus. Góða fólkið varð vonda fólkið. Illkvittna fólkið sem vildi sökkva fósturjörðum sínum í flóttamönnum og manngæsku varð mesta meinsemd samtímans. Á sama tíma og góða fólkið varð vont varð góðæri aftur gott. Orðskrifli sem hafði verið skammaryrði frá hruni fékk uppreisn æru. Viðskipti urðu aftur að trúarbrögðum, kauphöllin musteri og upprisinn útrásarvíkingur fannst með aðstoð jólastjörnunnar Nova, blossastjörnu sem sprakk eins og slíkar stjörnur gera af svo miklum krafti að birta hennar jókst hundraðþúsundfalt á andartaki – eða eins og það er nefnt á viðskiptamáli: fjárfestingin fjórfaldaðist frá stofnun fyrirtækisins árið 2007. Árið 2016 urðu túristar eins og tóbak – við tókum þá í nefið. Árið 2016 var árið sem við hættum við að spyrja „how do you like Iceland“? Ferðamenn hættu að vera manneskjur og urðu auðlind, okkar að nýta sem okkur sýndist. Þá skyldi virkja, í þá bora eins og olíulind, veiða þá í túristagildrur eins og fiska í net, mergsjúga þá og blóðmjólka uns við urðum bústin eins og troðnar botnvörpur, þeir skorpnir eins og skreið. „Má ég fá vatnssopa?“ „Nei, það er hættulegt að drekka úr íslenskum krönum. En fyrir litlar fjögurhundruð krónur færðu þessa vatnsflösku.“Eins og konfekt Árið 2016 var árið sem sannleikurinn leið undir lok. Innihald orða tók að snúast um magn fremur en gæði – væri eitthvað sagt nógu oft varð það satt: Barack Obama er stofnandi hryðjuverkasamtakanna ISIS. Hillary Clinton bakkar yfir hvolpa í frítíma sínum. Fréttamenn RÚV eru eðlur af elítuætt utan úr geimnum sem sendar voru til jarðar til að fella Framsóknarflokkinn. „En það er ekki satt?“ „Það skiptir ekki máli. Sannleikurinn er eins og konfekt. Maður velur sér mola eftir smekk.“Undir felldu yfirborði Árið 2016 var ár nostalgíunnar. Okkur lengdi eftir meintum einfaldleika fortíðar, sakleysi liðinna tíma, ylhýrum faðmi einangrunarinnar. „Muniði þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og maður kveikti á kertum þegar rafmagnið fór?“ Bretar kusu burt pólska pípara í þjóðaratkvæðagreiðslu í von um að endurvekja tímann þegar konur gengu í síðkjólum, karlmenn skörtuðu pípuhöttum og meðfæddum yfirburðum, fólk bjó í krúttlegum kotum með stráþökum, Doc Martin sótti sjúklinga heim, lögregluforingjarnir Morse og Poirot gættu öryggis fólks og Hyacinth Bucket bar fram te. Bandaríkjamenn úthýstu rökhyggjunni. Þeir kusu sér vegg sem var jafnlangur færiböndunum í Ford verksmiðjunni á þeim tímum þegar karlar störfuðu blístrandi við að púsla saman framtíðinni en skildu hana svo eftir í vinnunni og fóru heim til brosandi eiginkvenna með svuntu, rúllur í hárinu og steik á diski. En undir felldu yfirborði nostalgíunnar – rétt eins og undir síðkjólunum í Downton Abbey – leynist korselett. Árið 2016 gleymdum við kæfandi fjötrum fortíðar. Er við létum okkur dreyma um slétt andlit æskuáranna hunsuðum við tilvist graftargulra unglingabóla.Sagan af kalkúninum Gefur árið 2016 tilefni til að líta 2017 björtum augum? Svarið liggur í safaríkum kalkúninum sem svo mörg okkar munu leggja sér til munns í kvöld. Einu sinni var kalkúnn. Á hverjum morgni opnaði góðlátlegur fulltrúi mannkynsins búrið hans og fóðraði hann. En svo rann upp gamlársdagur. Ef eitthvað hefði verið að marka fortíðina hefði hann einfaldlega fengið að borða þennan morgun eins og aðra. En í staðinn varð kalkúnninn höfðinu styttri. Svarið er afdráttarlaust. Já. Við megum vera bjartsýn. Því fortíðin segir ekkert til um hvað framtíðin ber í skauti sér. Kæru lesendur, hafið þakkir fyrir samfylgdina á árinu. Stórt læk á ykkur öll. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun