Yfir veturinn sitja veiðimenn og hnýta fyrir komandi sumar og það eru alltaf einhverjar flugur sem eru vinsælli en aðrar.
Það kemur alltaf fram fluga reglulega sem verður skyldueign í boxinu og þá gildir einu hvort það er laxafluga eða silungsfluga. Laxaflugurnar sem hafa komið fram síðustu ár og náð því að verða vinsælar hjá veiðimönnum sem og verið veiðnar á sama tíma eru t.d. Metalica, Green Collie Bitch og Haugur svo aðeins fáar séu nefndar. Silungsflugur sem slá svona í gegn koma ekki oft fram en þegar þær gera það flýgur orðrómurinn hratt og fljótlega eru allir komnir með fluguna í boxið.
Flugan sem var á þröskuldi vinsælda í fyrra verður líklega spútnik flugan í silung þetta árið, það er í það minnsta okkar ágiskun. Flugan er bæði veiðin og fjölhæf sem þýðir að hún er notuð til jafns í ám og vötnum. Hún líkist lirfu bitmýs og þegar það er klak í gangi í vötnunum og lirfurnar á leiðinni uppá yfirborðið getur þessi fluga gefið vel, mjög vel. Hún á nokkur hálfsystkin og má þar nefna Friscoinn hans Þórs Níelsen og Taylorinn hans Skarphéðins klæðskera en báðar þessar flugur líkja eftir bitmýslirfunni. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er þetta auðhnýtt fluga sem fer best á low water long shank öngul í stærðum 12-18#. Veiddu hana á langan taum, löturhægt en líka í litlum stuttum rykkjum í öðru hverju kasti.
