Enski boltinn

Sigrún Sjöfn: Fyrsta skrefið í rétta átt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir í leik á móti Keflavík fyrr í vetur.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir í leik á móti Keflavík fyrr í vetur. Vísir/Andri Marinó
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður Skallagríms var hæstánægð með sigur liðsins gegn Keflavík í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna í kvöld. Hún biðlaði til stuðningsmanna í Borgarnesi að fylla Fjárhúsið á sunnudag.

„Ég er mjög sátt og ánægð með liðið hvernig það barðist allan leikinn. Það er fínt að ná 1-0 forystu en þetta er langt einvígi og aðeins fyrsta skrefið í rétta átt,“ sagði Sigrún Sjöfn við Vísi strax að leik loknum.

Skallagrímur var að elta Keflavík lengst af en misstu þær aldrei of langt frá sér. Gestirnir náðu svo forystunni í síðasta leikhlutanum og létu hana ekki af hendi eftir það.

„Það er erfitt að elta og það tekur af okkur. Við vildum ekki missa þær of langt frá okkur, munurinn var 5-10 stig og þetta var staðurinn þar sem við vorum kannski bara sáttar að hafa þær á. Svo myndum við taka yfir í lokin og Tavelyn (Tillman) steig virkilega vel upp og sótti stigin. Liðið var hörkugott varnarlega þar að auki,“ bætti Sigrún við en hún setti mikilvægar körfur og þar af tvær þriggja stiga sem fóru af spjaldinu og ofan í.

„Ég held að í öllum mínum skotum hafi spjaldið hjálpað og þá er ágætt bara að miða á það og gá hvort að fleiri skot detti ekki niður.“

Næsti leikur er í Borgarnesi á sunnudag og Sigrún sagði mikilvægt að leikmenn Skallgríms héldu sér niðri á jörðinni.

„Við vitum allar að þetta er ekki búið. Ef við ætlum að vera uppi í skýjunum þá gefur þessi sigur okkur ekki neitt. Það verður hörkuleikur á sunnudag og ég biðla til Borgnesina að fjölmenna, við þurfum á ykkur að halda. Keflavík er með hörkugott lið, með ferska fætur alls staðar og marga leikmenn sem eru bara góðir. Það er sagt að þær séu ungar og efnilegar en þær eru það ekki lengur, þær eru bara góðar.“

„Lykillinn verður vörnin. Við þurfum að halda þeim í 60 stigum og taka svo sóknina með,“ sagði Sigrún Sjöfn á lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×