Þrátt fyrir að hafa spilað á þremur höggum yfir pari í dag er Bandaríkjamaðurinn Charley Hoffman enn með forystu á Mastersmótinu í golfi sem fer fram á Augasta-vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum.
Hoffman var með fjögurra högga forystu eftir fyrsta daginn. Hann lék ekki nærri því jafn vel í dag og kláraði hringinn á þremur höggum yfir pari.
Hoffman deilir efsta sætinu með Sergio García frá Spáni, Thomas Pieters frá Belgíu og Rickie Fowler frá Bandaríkjunum en þeir eru allir á fjórum höggum undir pari.
Fowler lék manna best í dag, á fimm höggum undir pari og hækkaði sig um 18 sæti.
Englendingurinn Lee Westwood, sem var í 3. sæti eftir fyrsta daginn, náði sér engan veginn á strik í dag, lék á fimm höggum undir pari og er kominn niður í 19.-31. sæti.
Sigurvegarinn frá því í fyrra, Danny Willett, lék á sex höggum yfir pari í dag og komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
Jordan Spieth, sem vann Mastersmótið 2015 og lenti í 2. sæti 2014 og 2016, spilaði mun betur en í gær og er kominn upp í 10.-12. sæti. Spieth lék á þremur höggum undir pari í dag og er samtals á parinu.
