Golf

Guðmundur Ágúst fær að keppa við Henrik Stenson á Nordea Masters

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd/GSÍ
Guðmundur Ágúst Kristjánsson sýndi styrk sinn á úrtökumóti fyrir Nordea Masters og tryggði sér þátttökurétt á sjálfu Nordea Masters sem er hluti af sterkustu mótaröð Evrópu.

Guðmundur Ágúst varð í öðru sæti á úrtökumótinu fyrir Nordea Masters en hann lék á fimm höggum undir pari á Barsebäck golfvellinum sem er rétt utan við Malmö í Svíþjóð.

Með árangri sínum náði atvinnukylfingurinn úr GR að tryggja sér keppnisrétt á sjálfu Nordea Masters sem er hluti af sterkustu mótaröð Evrópu.

Guðmundur Ágúst lék á 68 höggum á þessum par 73 velli. Hann fékk sex fugla og einn skolla. Fjórir fuglanna komu á par 4 holu en tveir þeirra komu á par 5 holu. Skollinn var síðan á par 4 holu.

Mótið fer fram 1.-4. júní á Barsebäck og þar mæta til leiks margir af bestu kylfingum heims. Enska ungstirnið Matthew Fitzpatrick hefur titil að verja á mótinu.

Alls reyndu 124 kylfingar sig á úrtökumótinu en alls komust þrír áfram. Adrien Bernadet og Niklas Lemke öðluðust keppnisrétt líkt og Guðmundur Ágúst. Þar mæta til leiks kylfingar á borð við heimamennina Henrik Stenson og Alexander Noren.

Andri Þór Björnsson (GR), Axel Bóasson (GK) og Haraldur Franklín Magnús (GR) komust ekki áfram.  Andri lék á einu höggi undir pari, Axel á +2 og Haraldur á +4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×