Golf

Besta byrjunin hjá Ólafíu á LPGA-mótaröðinni síðan í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. vísir/getty
Íslenski atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir átti mjög flottan fyrsta hring á LPGA Volvik meistaramótinu á Ann Arbor vellinum við Detroit í Bandaríkjunum en þetta mót er hluti af LPGA mótaröðinni.

Ólafía Þórunn lék átján holurnar á 69 höggum eða þremur höggum undir pari vallarins.

Hún var einu höggi yfir pari eftir fimm fyrstu holurnar en náði þá þremur fuglum á fjórum síðustu holum á fyrri níu. Ólafía lék síðan seinni níu holurnar á einu höggi undir pari og fékk samtals fjóra fugla á þessum hring.

Ólafía Þórunn er eins og er í sjötta sæti á mótinu en margar eiga eftir að ljúka leik á fyrsta hringnum og því gæti hún færst eitthvað niður á listanna í dag.

Ólafía Þórunn fékk nýjan aðstoðarmann á LPGA Volvik mótinu en þar mætti til leiks þaulreyndur atvinnukylfuberi. Thomas Bojanowski, unnusti Ólafíu Þórunnar, var aðstoðarmaður hennar á  Kingsmill meistaramótinu í Williamsburg í síðustu viku.

Eftir þessa góðu byrjun á Ólafía Þórunn ágæta möguleika á því að ná lokaniðurskurðinum í fyrsta sinn síðan á ISPS Handa mótinu í Ástralíu í febrúar.

Ólafía Þórunn hefur ekki komist í gegnum niðurskurðinn á síðustu fimm LPGA-mótum sínum en þetta er besta byrjun hennar á móti síðan á Bank of Hope mótinu um miðjan mars.

Þetta er annað mótið hennar í fjögurra móta törn því hún á síðan eftir að keppa á ShopRite LPGA Classic í New Jersey 2. til 4. júní og svo á Manulife LPGA Classic mótinu í Toronto 8. til 11. júní.

Ólafía Þórunn hefur nú þegar leikið á sjö mótum á LPGA mótaröðinni frá því í janúar. Hún komst í gegnum niðurskurðinn á fyrstu tveimur mótunum en síðan þrjú mót í röð þar sem hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Á sjötta mótinu komst hún í gegnum fyrri niðurskurðinn eftir 54 holur en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn á síðasta móti i Williamsburg.


Tengdar fréttir

Afleitur hringur Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fann sig ekki á þriðja degi Volunteers of America Texas Shootout mótsins í golfi sem fer fram á Las Colinas vellinum í Texas.

Vonir um íslenska páskafugla

Páskahelgin er söguleg fyrir því í fyrsta sinn á Ísland keppendur á bandarísku og evrópsku mótaröðinni á sama tíma. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir keppir á LPGA á Hawaii og Valdís Þóra Jónsdóttir á LET í Marokkó.

Ólafía Þórunn á tveimur höggum yfir pari

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á tveimur höggum yfir pari á fyrsta degi Kingsmill Championship mótinu í Williamsburg í Virginíu. Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×