Golf

Birgir Leifur í fjórða sæti á móti í Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Mynd/GSÍmyndir
Birgir Leifur Hafþórsson spilaði frábærlega á lokahring KPMG mótsins í Belgíu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur lék á sex höggum undir pari og endar því í 4. til 9. sæti á sextán höggum undir pari.

Austurríkismaðurinn Martin Wiegele tryggði sér sigurinn með því að leika á 19 höggum undir pari, Spánverjinn Pedro Oriol var annar á 18 höggum undir pari en þriðji var Daninn Mark Flindt Haastrup á 17 höggum undir pari. Birgir Leifur var einn sex sem léku á sextán höggum undir pari.

Sjöfaldi Íslandsmeistarinn lék alla hringina fjóra undir pari en engan betur en lokahringinn þar sem hann fékk sjö fugla og aðeins einn skolla.

Birgir lék hringina fjóra á 69 höggum, 68 höggum, 69 höggum og loks 66 höggum í dag. Þetta gera alls 272 högg og 16 högg undir pari.

Mótið fer fram á Royal Waterloo Golf Club og er þetta í fimmta sinn sem mótið fer fram á þessum velli. Það er hægt að sjá allt skor keppenda hér.

Birgir Leifur átti magnað mót í Belgíu en hann náði meðal annars tvisvar sinnum erniá öðrum hring, fór fyrst holu í höggi á fjórðu braut og spilaði síðan par fimm holu á sautjándu á þremur höggum.

Birgir fékk alls 23 fugla og tvo erni á mótinu en á fjórum holum náði hann þremur fuglum af fjórum mögulegum en það var á holum tvö, þrjú, tíu og átján.

Mótið í Belgíu er þriðja mótið á þessu tímabili hjá Birgi á Áskorendamótaröðinni en hann hefur spilað betur og betur á hverju móti eftir að hafa ekki komist í gegnum niðurskurðinn á fyrsta mótinu sem fram fór í Andalúsíu á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×