Golf

Ólafía: Tilfinningin er æðisleg

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafía spjallar við aðdáendur í dag.
Ólafía spjallar við aðdáendur í dag. vísir/friðrik þór
Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður á morgun fyrsti íslenski kylfingurinn til þess að taka þátt á risamóti í golfi. Þá hefst KPMG PGA-meistaramótið í Chicago og okkar kona verður þar á meðal keppenda.

„Tilfinningin er æðisleg. Mjög skemmtilegt og spennandi fram undan,“ segir Ólafía við Þorstein Hallgrímsson sem er ytra ásamt Friðriki Þór Halldórssyni myndatökumanni.

„Vellinum er stillt upp mjög erfiðum því þetta er stórmót. Brautirnar eru þröngar, röffið er hátt og þétt. Grínin eru tricky og þetta er því allur pakkinn,“ segir okkar kona brosmild að venju og bætir við það sé betra að vera í sandgryfju en karganum.

Í fyrstu var talið að Ólafía hefði fengið boð á mótið en síðar kom í ljós að hún hafði unnið sér inn þátttökurétt með spilamennsku sinni á LPGA-mótaröðinni.

„Ég met það mikils að hafa unnið mér þetta inn sjálf,“ segir Ólafía en hún hefur verið að glíma við eymsli í öxl.

„Ég er ekki alveg orðin 100 prósent góð. Ég er dugleg að fara til sjúkraþjálfara, teygja og gera alls konar æfingar.“

Ólafía er búin að upplifa mikið síðustu mánuði en hvað er mest spennandi við að vea á þessari sterkustu mótaröð heims?

„Ég fæ að spila ótrúlega góða velli og þetta er allt svo fagmannlegt og skemmtilegt. Það er erfitt að taka langar tarnir og vera frá öllum í lengri tíma. Líka þegar gengur ekki vel auðvitað.“

Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×