Dýrkeypt pjatt Sif Sigmarsdóttir skrifar 1. júlí 2017 07:00 Í vikunni sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið af kröfu stúlku um miskabætur vegna atviks sem átti sér stað á sólbaðsstofu við Grensásveg. Um hádegisbil þann 11. apríl árið 2015 barst lögreglu tilkynning um að tvær stúlkur svæfu vímusvefni í ljósabekkjum stofunnar. Óskaði starfsfólk eftir að þær yrðu fjarlægðar. Lögreglu tókst að vekja stúlkurnar eftir nokkra mæðu. Önnur stúlknanna yfirgaf sólbaðsstofuna í kjölfarið. Hin var í svo slæmu ástandi, að því er fram kemur í dómnum, að henni var það ekki unnt. Var hún því flutt á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem til stóð að bjóða henni gistingu. Við komu á lögreglustöðina var stúlkan hins vegar orðin hressari og var henni ekið heim til ömmu sinnar. Sú síðarnefnda stefndi ríkinu í kjölfarið. Fullyrti hún að lögregluþjónar sem voru karlkyns hefðu séð hana nakta í ljósabekknum. Þeir hefðu auk þess neitað að yfirgefa klefa hennar þegar hún klæddi sig. Krafðist hún 900 þúsund króna í miskabætur. Lögreglumenn neituðu sök. Í framburði þeirra kom fram að starfsfólk sólbaðsstofunnar hefði verið búið að breiða handklæði yfir stúlkurnar þegar þá bar að garði. Þeir sögðust jafnframt hafa vikið úr klefanum meðan stúlkan klæddi sig. Dómara þótti stúlkunni ekki hafa tekist að sýna fram á að lögreglumenn hefðu valdið henni miska með því að ganga nær friðhelgi einkalífs hennar en efni stóðu til þegar þeir vöktu hana á sólbaðsstofunni. Ekkert benti til þess að þeir hefðu niðurlægt hana með því að standa yfir henni meðan hún klæddist.Stærsta spurningin Þegar ég renndi augunum yfir frétt af ofangreindu dómsmáli í vikunni fannst mér það vart í frásögur færandi. Það var greinilega komin gúrkutíð. En af einhverjum ástæðum sat málið í mér. Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að ég áttaði mig á hvers vegna fyrirsögnin „Sofnaði vímusvefni í ljósabekk og stefndi ríkinu“ leitaði enn á mig. Stærstu spurningum málsins var nefnilega enn ósvarað: Hvers vegna í ósköpunum er ekki löngu búið að banna ljósabekki og loka öllum sólbaðsstofum? Væri ekki nær að stefna ríkinu fyrir að heimila notkun ljósabekkja?Gríðarstór tilraun Sérfræðingur á sviði geislavarna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vitnar í segir ljósabekki „gríðarstóra lifandi tilraun á áhrifum geislunar á fólk í Norður-Evrópu og Ameríku“. Tíu prósent fólks í Norður-Evrópu nota ljósabekki reglulega. Rannsóknir sýna hins vegar að notkun ljósabekkja stóreykur hættu á illkynja húðkrabbameini. Þeir sem nota ljósabekki fyrir þrjátíu og fimm ára aldur eru næstum tvisvar sinnum líklegri en aðrir til að fá illkynja sortuæxli, hættulegustu tegund húðkrabbameins. Þeir sem nota ljósabekki fyrst eftir þann aldur eru 20% líklegri til að fá sortuæxli. Árið 2010 voru birtar niðurstöður rannsóknar á þróun sortuæxla á Íslandi í tímaritinu American Journal of Epidemiology. Segir þar að fram undir 1990 hafi Íslendingar verið með lægstu tíðni sortuæxla í húð á Norðurlöndum. Eftir það jókst tíðnin mikið uns íslenskar konur urðu þær líklegustu á Norðurlöndum til að fá sortuæxli. Talið er að meiri notkun á ljósabekkjum hér á landi en í nágrannalöndunum sé hluti skýringarinnar.Eftirsjá Ég sé ekki eftir mörgu í lífinu; mér finnst það of stutt til að horfa mikið um öxl. En ég á mér eina eftirsjá. Þegar ég var þrettán ára tókum við vinkonurnar okkur til og keyptum okkur allar tíu tíma ljósakort. Við vorum nefnilega að fara að fermast. Við vorum brúnar og sætar á fermingardaginn. En pjattið var dýrkeypt. Á einu bretti höfðum við bæst í þann hóp sem er tvisvar sinnum líklegri til að fá sortuæxli. Árið 2009 voru ljósabekkir bannaðir í Brasilíu. Árið 2015 gekk sambærilegt bann í gildi í Ástralíu. Er ekki tími til kominn að við Íslendingar bregðumst við niðurstöðum nýjustu rannsókna, bönnum þann skaðvald sem ljósabekkir eru og björgum mannslífum? Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Í vikunni sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið af kröfu stúlku um miskabætur vegna atviks sem átti sér stað á sólbaðsstofu við Grensásveg. Um hádegisbil þann 11. apríl árið 2015 barst lögreglu tilkynning um að tvær stúlkur svæfu vímusvefni í ljósabekkjum stofunnar. Óskaði starfsfólk eftir að þær yrðu fjarlægðar. Lögreglu tókst að vekja stúlkurnar eftir nokkra mæðu. Önnur stúlknanna yfirgaf sólbaðsstofuna í kjölfarið. Hin var í svo slæmu ástandi, að því er fram kemur í dómnum, að henni var það ekki unnt. Var hún því flutt á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem til stóð að bjóða henni gistingu. Við komu á lögreglustöðina var stúlkan hins vegar orðin hressari og var henni ekið heim til ömmu sinnar. Sú síðarnefnda stefndi ríkinu í kjölfarið. Fullyrti hún að lögregluþjónar sem voru karlkyns hefðu séð hana nakta í ljósabekknum. Þeir hefðu auk þess neitað að yfirgefa klefa hennar þegar hún klæddi sig. Krafðist hún 900 þúsund króna í miskabætur. Lögreglumenn neituðu sök. Í framburði þeirra kom fram að starfsfólk sólbaðsstofunnar hefði verið búið að breiða handklæði yfir stúlkurnar þegar þá bar að garði. Þeir sögðust jafnframt hafa vikið úr klefanum meðan stúlkan klæddi sig. Dómara þótti stúlkunni ekki hafa tekist að sýna fram á að lögreglumenn hefðu valdið henni miska með því að ganga nær friðhelgi einkalífs hennar en efni stóðu til þegar þeir vöktu hana á sólbaðsstofunni. Ekkert benti til þess að þeir hefðu niðurlægt hana með því að standa yfir henni meðan hún klæddist.Stærsta spurningin Þegar ég renndi augunum yfir frétt af ofangreindu dómsmáli í vikunni fannst mér það vart í frásögur færandi. Það var greinilega komin gúrkutíð. En af einhverjum ástæðum sat málið í mér. Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að ég áttaði mig á hvers vegna fyrirsögnin „Sofnaði vímusvefni í ljósabekk og stefndi ríkinu“ leitaði enn á mig. Stærstu spurningum málsins var nefnilega enn ósvarað: Hvers vegna í ósköpunum er ekki löngu búið að banna ljósabekki og loka öllum sólbaðsstofum? Væri ekki nær að stefna ríkinu fyrir að heimila notkun ljósabekkja?Gríðarstór tilraun Sérfræðingur á sviði geislavarna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vitnar í segir ljósabekki „gríðarstóra lifandi tilraun á áhrifum geislunar á fólk í Norður-Evrópu og Ameríku“. Tíu prósent fólks í Norður-Evrópu nota ljósabekki reglulega. Rannsóknir sýna hins vegar að notkun ljósabekkja stóreykur hættu á illkynja húðkrabbameini. Þeir sem nota ljósabekki fyrir þrjátíu og fimm ára aldur eru næstum tvisvar sinnum líklegri en aðrir til að fá illkynja sortuæxli, hættulegustu tegund húðkrabbameins. Þeir sem nota ljósabekki fyrst eftir þann aldur eru 20% líklegri til að fá sortuæxli. Árið 2010 voru birtar niðurstöður rannsóknar á þróun sortuæxla á Íslandi í tímaritinu American Journal of Epidemiology. Segir þar að fram undir 1990 hafi Íslendingar verið með lægstu tíðni sortuæxla í húð á Norðurlöndum. Eftir það jókst tíðnin mikið uns íslenskar konur urðu þær líklegustu á Norðurlöndum til að fá sortuæxli. Talið er að meiri notkun á ljósabekkjum hér á landi en í nágrannalöndunum sé hluti skýringarinnar.Eftirsjá Ég sé ekki eftir mörgu í lífinu; mér finnst það of stutt til að horfa mikið um öxl. En ég á mér eina eftirsjá. Þegar ég var þrettán ára tókum við vinkonurnar okkur til og keyptum okkur allar tíu tíma ljósakort. Við vorum nefnilega að fara að fermast. Við vorum brúnar og sætar á fermingardaginn. En pjattið var dýrkeypt. Á einu bretti höfðum við bæst í þann hóp sem er tvisvar sinnum líklegri til að fá sortuæxli. Árið 2009 voru ljósabekkir bannaðir í Brasilíu. Árið 2015 gekk sambærilegt bann í gildi í Ástralíu. Er ekki tími til kominn að við Íslendingar bregðumst við niðurstöðum nýjustu rannsókna, bönnum þann skaðvald sem ljósabekkir eru og björgum mannslífum? Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.