Í ár taka rúmlega tvö þúsund stelpur þátt í Símamótinu en þær koma frá 38 félögum. Alls eru þetta 300 lið sem spila tæplega 1200 leiki.
Íslenska kvennalandsliðið er á leiðinni á EM í Hollandi og þær fljúga út í dag. Þær gáfu sér samt tíma til að mæta í Smárann í gær og tala við framtíðar fótboltakonur okkar.
Glódís Perla Viggósdóttir talaði við stelpurnar og keyrði aðeins upp stemmninguna í hópnum en svo var ákveðið að allir tækju saman Víkingaklappið.
SportTV tók upp setningarhátíðina og hefur nú tekið saman myndband með því þegar landsliðið kom og tók Víkingaklappið með stelpunum á Símamótinu. Það má sjá þetta myndband hér fyrir neðan.
Í ár verður Síminn með beinar útsendingar frá Símamótinu í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Alls verða 43 leikir sýndir í beinni útsendingu um helgina.
Útsendingin hófst í morgun og stendur til klukkan fimm með leikjum hjá 5. flokki. Á laugardag verður útsending frá leikjum hjá 6.flokki og á sunnudag verða sýndir leikir hjá 7.flokki ásamt úrslitaleikjum í öllum flokkum.