Golf

Valdís á sex yfir en þurfti að hætta eftir fimmtán vegna birtuskilyrða

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Valdís Þóra ásamt þjálfara sínum, Hlyni Geir Hjartarsyni.
Valdís Þóra ásamt þjálfara sínum, Hlyni Geir Hjartarsyni. mynd/golf.is
Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, þreytti frumraun sína á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi í dag en hún þurfti að hætta leik í tvígang í dag vegna veðurskilyrða.

Var þetta í fyrsta skiptið sem Valdís tók þátt í einu af risamótunum fjórum í kvennagolfi en með því fetaði hún í fótspor Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur sem þreytti frumraun sína á PGA-meistaramótinu á dögunum.

Fór mótið fram á Trump National Golf Club í Bedminster, New Jersey í Bandaríkjunum.

Valdís átti erfitt uppdráttar á upphafsbrautunum en hún fékk tvo skolla á fyrstu þremur holunum. Fylgdi hún því eftir með tveimur skollum og einum skramba á þremur holum en fresta þurfti leik er Valdís var á áttundu braut.

Eftir tveggja tíma pásu fékk Valdís að fara út á völlinn á nýjan leik en þessi pása virtist hafa gert gæfumuninn fyrir Valdísi sem fékk sjö pör í röð á næstu holum.

Var hún oft óheppinn að púttin skyldu ekki detta fyrir hana en hún krækti fyrir fugli á tólftu braut og setti niður stutt pútt fyrir pari.

Þegar komið var á fimmtánda teig var ljóst að hún næði ekki að ljúka leik í dag þar sem dimmt var orðið úti í New Jersey.

Fékk hún að leika síðustu holuna þar sem hún hitti ekki úr fuglapútti en setti niður áttunda parið í röð.

Hún leikur því seinustu þrjár holur dagsins í fyrramálið áður en leikur hefst á öðrum degi en þegar þetta er skrifað deilir hún 139. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×