Fótbolti

Hnéaðgerð Kolbeins Sigþórs tókst vel: Er mjög bjartsýnn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér marki Kolbeins Sigþórssonar á móti Englandi á EM í fyrra.
Íslensku strákarnir fagna hér marki Kolbeins Sigþórssonar á móti Englandi á EM í fyrra. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson er loksins á batavegi eftir að hafa glímt við erfið hnémeiðsli í tæpt ár. Kolbeinn fór í dögunum í sína aðra aðgerð á innan við ári og hún heppnaðist vel.

Kolbeinn lék sinn síðasta fótboltaleik 28.ágúst á síðasta ári en þá var hann með liði Nantes á móti Bordeaux. Nantes lánaði Kolbein til tyrkneska félagsins Galatasaray en vegna meiðslanna náði hann ekki að spila fyrir liðið.

„Ég fór í aðgerð í Svíþjóð á dögunum hjá Jóni Karlssyni og hún gekk vel, hann er afar bjartsýnn á að ég muni ná fullum bata. Það var skafið af innanverðum liðþófa sem var rifinn og svo var einnig skafið af brjóski,“ sagði Kolbeinn í viðtali við fótboltavefmiðilinn 433.is.

„Staðan á mér eftir þessa aðgerð er góð og ég finn það sjálfur að ég er allur að koma, sú staðreynd gefur mér góða bjartsýni á framhaldið,“ segir Kolbeinn sem hefur ekkert spilað með íslenska landsliðinu síðan á EM í Frakklandi síðast sumar.

„Ég er mjög bjartsýnn á að þetta fari rétta leið og eins og staðan er í dag lítur þetta mjög vel út með framhaldið,“ sagði Kolbeinn í viðtalinu við 433.is en hvenær sjáum við hann aftur inn á fótboltavellinum?

„Það er mjög erfitt að gefa upp nákvæma dagsetningu en skurðlæknirinn talaði um að eftir einn og hálfan til tvo mánuði ætti ég að geta byrjað að æfa fótbolta á nýjan leik. Ég mun samt sem áður fara mér hægt og meta stöðuna eftir því hversu vel endurhæfingin gengur,“ sagði Kolbeinn í viðtalinu og nú er bara að vona það besta.  Það má lesa allt viðtalið við hann hér.


Tengdar fréttir

Kolbeinn á förum frá Galatasary

Kolbeinn Sigþórsson er á förum frá Galatasary þar sem hann hefur verið í láni frá því í lok ágúst. Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×