Golf

Kim hélt forystunni og vann sitt fyrsta risamót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kim með sigurlaunin.
Kim með sigurlaunin. vísir/getty
In-Kyung Kim frá Suður-Kóreu hrósaði sigri á Opna breska meistaramótinu í golfi sem lauk í dag. Leikið var á Kingsbarn-vellinum í Skotlandi.

Kim var með sex högga forystu fyrir lokadaginn og því í afar góðri stöðu.

Kim fékk fugl á fyrstu holu, svo sex pör í röð áður en hún fékk annan fugl á 8. holu. Sú suður-kóreska fékk skolla á 9. holu en paraði rest og landaði sigrinum. Skollinn á 9. holu var hennar á eini á síðustu tveimur hringjunum.

Þetta var fyrsti sigur hinnar 29 ára gömlu Kim á risamóti á ferlinum. Fyrir hann fékk hún rúmar 50 milljónir króna í sinn hlut.

Jodi Ewart frá Englandi lyfti sér upp í 2. sætið með frábærri spilamennsku í dag. Hún lék hringinn á átta höggum undir pari og endaði á 16 undir pari.

Michelle Wie frá Bandaríkjunum, Caroline Masson frá Þýskalandi og Georgia Hall frá Englandi voru jafnar í 3.-5. sæti á 13 höggum undir pari.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var á meðal keppenda á Opna breska en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×