Körfubolti

Craig: Ég svaf ekki mikið í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Pedersen með íslenska hópnum fyrir utan flugvélina sem fór með íslenska liðið til Helsinki.
Craig Pedersen með íslenska hópnum fyrir utan flugvélina sem fór með íslenska liðið til Helsinki. Mynd/KKÍ
Það eru bara þrír dagar í fyrsta leik Íslands á Eurobasket 2017 og það mátti sjá á íslenska hópnum í Leifsstöð í morgun að það ríkir mikil eftirvænting meðal  allra sem taka þátt í þessu stóra verkefni.

„Við erum allir mjög spenntir og ég svaf ekki mikið í nótt,“ viðurkenndi Craig Pedersen, þjálfari íslenska körfuboltalandsliðsins rétt fyrir flug íslenska hópsins til Helsinki í morgun.

Craig Pedersen er búinn að þjálfa íslenska liðið í þrjú ár en er að fara með íslenska landsliðið í annað skiptið á Evrópumót. Hann var einnig þjálfari liðsins í Berlín fyrir tveimur árum.

„Það verður gott að ná að komast sér vel fyrir í Helsinki og geta lagt lokahönd á undirbúninginn á æfingunum úti,“ sagði Craig Pedersen.

„Það fylgdi því notaleg tilfinning þegar allir gengu saman inn í Leifsstöð. Það verður samt best að komast þangað,“ sagði Craig.

„Þetta verður alveg eins erfitt og síðast og riðilinn okkar er alveg jafnsterkur núna. Það eru NBA-leikmenn í nánast öllum liðunum og leikmenn í bestu liðum Evrópu þannig að þetta verður mjög erfitt. Vonandi náum við að spila vel út allt mótið,“ sagði Craig.

„Ég held að reynslan frá því á EM 2015 muni hjálpa okkur mikið en það mun líka hjálpa okkur að hafa spilað á móti mjög sterkum þjóðum í undirbúningsleikjunum og þá sérstaklega að hafa spilað við Rússland og Litháen. Strákarnir stóðu sig nokkuð vel á móti þeim,“ sagði Craig.

„Reynsla okkar frá síðasta Evrópumóti í viðbót við góðan undirbúning mun hjálpa okkur mikið,“ sagði Craig.

„Við höfum verið án tveggja leikmanna vegna meiðsla (Jón Arnór Stefánsson og Haukur Helgi Pálsson) en það hefur gefið öðrum leikmönnum meiri tækifæri í leikjunum. Það er jákvætt fyrir okkur að þeir hafi fengið að reyna sig á þessu stigi,“ sagði Craig.


Tengdar fréttir

Við verðum að spila af hörku

Það kom ekkert á óvart er Craig Pedersen valdi EM-hópinn sinn í gær. Tveir lykilmenn eru að glíma við meiðsli í aðdraganda mótsins. Þjálfarinn segir að liðið þurfi að leggja harðar að sér en andstæðingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×