Körfubolti

Brotnaði á móti Íslandi og missir af EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Lekavicius.
Lukas Lekavicius. Vísir/Getty
Litháar unnu Íslendinga í vináttulandsleik í Litháen í gærkvöldi en leikurinn var litháíska liðinu dýrkeyptur því liðið missti annan leikstjórnanda sinn í meiðsli í leiknum.

Lukas Lekavicius meiddist nefnilega illa á fæti í byrjun annars leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum. Hann var með 3 stoðsendingar í leiknum á tæpum fimm mínútum.

Eftir leikinn kom í ljós að Luko er ristarbrotinn og missir því af Evrópumótinu þar sem Litháar spila í Ísrael. Litháar voru búnir að tilkynna tólf manna EM-hópinn sinn en urðu að gera breytingu á honum vegna meiðsla Lekaviciaus.

Í stað Lukas Lekavicius kemur inn í liðið Adas Juskevicius sem spilaði á Spáni á síðustu leiktíð en samdi nýverið við BC Lietkabelis í Litháen.

Lukas er 23 ára gamall og nýbúinn að gera sinn fyrsta atvinnumannasamning utan Litháen. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við gríska stórliðið Panathinaikos í lok júní. Það mun því reyna á hann að ná sér góðum fyrir hans fyrsta tímabil í Grikklandi.

Lukas Lekavicius er ekki hávaxinn og fékk gælunafnið Isaiah Thomas af litháenskum blaðamönnum sem þótti leikstíll hans líkur fyrrum leikmanni Boston Celtics en báðir eru þeir eldfljótir.

Fyrsti leikur Litháa á EM er á móti Georgíu 31. ágúst næstkomandi en þeir eru líka í riðli með Ísrael, Ítalíu, Úkraínu og Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×