Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék einkar vel á fyrsta hring Indy Women in Tech Championship-mótsins sem fer fram í Indianapolis. Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi.
Ólafía lék hringinn í dag á fimm höggum undir pari og er þegar þetta er skrifað í 8.-16. sæti mótsins. Ekki hafa þó allir kylfingar lokið sér af.
Ólafía hóf leik á 10. holu. Hún fékk par á fyrstu tveimur holunum og svo skolla. Það reyndist vera eina höggið sem hú tapaði á hringnum.
Ólafía svaraði fyrir sig með fimm fuglum á næstu átta holum og kom sér í góða stöðu. Hún paraði svo sex holur í röð áður en hún fékk fugl á síðustu holunni.
Flott frammistaða hjá Ólafíu sem er greinilega í góðum gír þessa dagana. Hún spilaði ágætlega á móti í Portland um síðustu helgi þar sem hún endaði í 39. sæti.Það dugði Ólafíu til að komast inn á Evian Chapmionship-mótið, síðasta stórmót ársins, sem fer fram í næstu viku.
Ólafía verður aftur í eldlínunni á morgun. Bein útsending frá Indy Women in Tech-mótinu hefst klukkan 19:00 á Golfstöðinni.
