Körfubolti

Tryggvi: Á eftir búa til mitt nafn inn í þessum hópi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Vísir/Ernir
Tryggvi Snær Hlinason, miðherjinn efnilegi í íslenska körfuboltalandsliðinu er mjög spenntur fyrir lokaleik liðsins í kvöld en þá má búast við troðfullri höll þegar íslenska liðið mætir heimamönnum í finnska landsliðinu.

„Þetta var kannski betri leikur hjá mér en síðast. Á sama tíma horfi ég á þetta allt sem reynsluna að fá að spila á móti þessum leikmönnum og um leið með okkar leikmönnum,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason eftir leik Íslands og Slóveníu.

Íslenskir samherjar hans eiga enn eftir að læra betur að nota strákinn sem fær ekki nógu mikið af boltum inn í teig þegar hann er inná vellinum.

„Ég á eftir að komast inn í þetta prógram almennilega og búa til mitt nafn inn í þessum hóp. Ég treysti á að það komi bara á næstu árum,“ sagði Tryggvi. Íslenska liðið endaði leikinn við Slóvena betur en hina þrjá leikina á undan.

„Það er alltaf gott að enda þetta aðeins á einhverju jákvæðu en það sem skiptir máli er að við berjumst þar til að þetta er búið og ég held að við höfum gert það,“ sagði Tryggvi.

„Það verður spennandi að mæta Finnum og ég get ekki beðið. Það verður full stúka af Finnum og Íslendingum og það verður skemmtilegt að sjá hvernig þetta verður þegar stærri stúka verður á móti íslensku stúkunni. Ég held bara að íslenska stúkan muni ráða við fjölda Finnanna,“ sagði Tryggvi.

„Við erum hér til að sýna hvað við getum og reynum að gera það í hverjum einasta leik. Við reynum að halda áfram sama hvað gerist og sérstaklega fyrir fólkið heima og fyrir íslenskan körfubolta,“ sagði Tryggvi.

„Að fá að kynnast þessu sviði og spila á þessu sviði er snilld fyrir yngri leikmenn okkar. Reynslan sem við fáum á hverri mínútu er gífurleg,“ sagði Tryggvi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×