„Við ætluðum okkur sigur. Við byrjuðum heldur illa, en ég veit ekki hvað orsakar það,” sagði fyrirliðinn í samtali við Arnar Björnsson í Tampere í kvöld.
„Þeir skoruðu frábært mark úr aukaspyrnu sem hefði átt að vera brot á mig fyrst, en þeir skora upp úr því að Emil þurfti að taka hann niður.”
„Við reynum að halda áfram og fáum einhver færi í þessum leik, það er ekki það. Þetta var bara erfitt kvöld, en við vinnum saman sem þjóð og töpum saman sem þjóð.”
Sjá meira:Umfjöllun: Finnland - Ísland 1-0 | Slök frammistaða og tap í Tampere | Sjáðu markið
Það er stutt á milli leikja núna, því Ísland mætir Úkraínu strax á þriðjudag.
„Við þurfum að rífa okkur upp og það er sem betur fer annar leikur á þriðjudag. Sem betur fer getum við verið fljótir að jafna þetta út. Við þurfum sigur á Laugardalsvelli, eins og við þurftum í dag. Leiðinlegt, en svona er fótboltinn.”
Hvað vantaði uppá í dag?
„Við vorum ekki nægilega fljótir upp í sókn þegar við unnum boltann og þeir úr stöðum. Við áttuðum okkur alltof seint á því, í síðari hálfleik þar sem við reyndum að keyra þetta upp. Við vorum því miður aðeins of passívir í dag,” en Aron segir að draumurinn um HM 2018 sé ekkert úr sögunni.
„Hann er ekkert úr sögunni, en þetta verður erfitt núna. Við þurfum að halda haus. Það er annar leikur á þriðjudaginn og við þurfum þrjú stig þar,” en hvað er jákvæðast út úr þessum leik í kvöld?
„Það er ekki mikið, en það að við vorum að skapa okkur færri einum manni færri. Það er kannski það eina jákvæða. Það er ekki mikið,” sagði fyrirliðinn að lokum.