Golf

Ólafía lék á pari á fyrsta degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á vellinum í dag.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á vellinum í dag. Vísir/Þorsteinn
Ólafía Þórunn Kristinnsdóttir byrjaði ágætlega á Evian-mótinu í Frakklandi, síðasta risamóti ársins í kvennagolfinu. Hún lék á pari í dag og var í 38. sæti þegar hún kom í hús.

Fresta varð leik í gær vegna veðurs og hófst mótið því ekki fyrr en í dag. Mótinu lýkur engu að síður á sunnudag og verður því aðeins þrír hringir leiknir á mótinu.

Niðurskurðurinn fer fram að loknum öðrum keppnisdegi og komast þá 70 efstu kylfingarnir áfram á síðasta keppnisdag. Ólafía stendur því vel að vígi sem stendur.

Hún spilaði vel í dag en mestu munaði um að hún fékk þrjá fugla í röð á 13.-15. holu en Ólafía hóf í dag keppni á þeirri tíundu.

Ólafía sló sérstaklega vel af teig og hitti flestar brautir. Hún náði þó ekki öðrum fugli fyrr en á síðustu holu sinni í dag en fékk þess fyrir utan fjóra skolla.

Hún hefur leik klukkan 06.39 í fyrramálið á íslenskum tíma en bein útsending hefst á Golfstöðinni klukkan 09.00.

Fylgst var með gengi Ólafíu í beinni textalýsingu sem má lesa hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×