Huldufólk 21. aldarinnar Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 26. september 2017 09:30 Fátt er leiðinlegra fyrir unga stúlku en að sitja lengi í bíl sem hossast eftir hálfgerðri vegleysu klukkutímum saman. Þetta var þó hlutskipti eldri dóttur minnar í mörg ár þar sem við fórum oft vestur á firði. Til að létta undir með henni sagði ég henni sögur af álfum og huldufólki og til þess að ýta enn undir skemmtanagildið sagði ég að ef við stoppuðum uppi á Hjallahálsi myndum við eflaust sjá huldufólki bregða fyrir. Í það minnsta gætum við heyrt í því ef við settum eyrun upp í vindinn. Þetta bætti stemninguna en þegar upp á hálsinn var komið varð ég líka að standa mína plikt og hefja huldufólksskoðun. Stelpan fór náttúrlega að skima í allar áttir og lagði vel við hlustir. En þá kom þar að þýsk kona á mjög svo klyfjuðu reiðhjóli. Fannst mér það skemmtileg nýlunda enda var þetta fyrir þá tíð að ekki varð þverfótað fyrir ferðafólki. Tókum við tal saman og var hún afar sæl með veru sína á Vestfjörðum. Svo kvaddi ég þessa mætu konu sem hjólaði fimlega suður á leið. Dóttir mín var hins vegar afar vonsvikin því ekki hafði sést tangur né tetur af huldufólki. Þá freistaðist ég til þess að spyrja: „Sástu konuna á hjólinu?“ Hún játti því. „Þetta var huldukona,“ sagði ég þá með dulúðlegum svip. Var þetta þá strax orðin hin mesta skemmtiferð. Eftir þetta horfði hún grunsemdaraugum á fólk sem talaði með þýskum hreim. Hún var svo orðin tólf ára þegar hún komst að því, sér til mikillar gremju, að það væri ekkert huldufólk uppi á Hjallahálsi heldur niðri í Teigsskógi. Eflaust verður því þó ekki vært þar nú þegar verið er að svipta hulunni af huldufólki 21. aldarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið Halldór 27.12.2025 Halldór Þegar þeir sem segjast þjóna þjóðinni ráðast á hana Ágústa Árnadóttir Skoðun Þetta varð í alvöru að lögum! Snorri Másson Skoðun Fleiri ásælast Grænland en Trump Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun RÚV: Þú skalt ekki önnur útvörp hafa! Gunnar Salvarsson Skoðun Vonin sem sneri ekki aftur Sigurður Árni Reynisson Skoðun Vínsalarnir og vitorðsmenn þeirra Ögmundur Jónasson Skoðun Verður Hvalfjörður gerður að einni stærstu rotþró landsins? Haraldur Eiríksson Skoðun Áramótaannáll 2025 Þórir Garðarsson Skoðun Viðskilnaður Breta við ESB: Sársauki, frelsi og veðmálið um framtíðina Eggert Sigurbergsson Skoðun
Fátt er leiðinlegra fyrir unga stúlku en að sitja lengi í bíl sem hossast eftir hálfgerðri vegleysu klukkutímum saman. Þetta var þó hlutskipti eldri dóttur minnar í mörg ár þar sem við fórum oft vestur á firði. Til að létta undir með henni sagði ég henni sögur af álfum og huldufólki og til þess að ýta enn undir skemmtanagildið sagði ég að ef við stoppuðum uppi á Hjallahálsi myndum við eflaust sjá huldufólki bregða fyrir. Í það minnsta gætum við heyrt í því ef við settum eyrun upp í vindinn. Þetta bætti stemninguna en þegar upp á hálsinn var komið varð ég líka að standa mína plikt og hefja huldufólksskoðun. Stelpan fór náttúrlega að skima í allar áttir og lagði vel við hlustir. En þá kom þar að þýsk kona á mjög svo klyfjuðu reiðhjóli. Fannst mér það skemmtileg nýlunda enda var þetta fyrir þá tíð að ekki varð þverfótað fyrir ferðafólki. Tókum við tal saman og var hún afar sæl með veru sína á Vestfjörðum. Svo kvaddi ég þessa mætu konu sem hjólaði fimlega suður á leið. Dóttir mín var hins vegar afar vonsvikin því ekki hafði sést tangur né tetur af huldufólki. Þá freistaðist ég til þess að spyrja: „Sástu konuna á hjólinu?“ Hún játti því. „Þetta var huldukona,“ sagði ég þá með dulúðlegum svip. Var þetta þá strax orðin hin mesta skemmtiferð. Eftir þetta horfði hún grunsemdaraugum á fólk sem talaði með þýskum hreim. Hún var svo orðin tólf ára þegar hún komst að því, sér til mikillar gremju, að það væri ekkert huldufólk uppi á Hjallahálsi heldur niðri í Teigsskógi. Eflaust verður því þó ekki vært þar nú þegar verið er að svipta hulunni af huldufólki 21. aldarinnar.
Viðskilnaður Breta við ESB: Sársauki, frelsi og veðmálið um framtíðina Eggert Sigurbergsson Skoðun
Viðskilnaður Breta við ESB: Sársauki, frelsi og veðmálið um framtíðina Eggert Sigurbergsson Skoðun