N'Golo Kante hefur yfirgefið landsliðshóp Frakka og er á leið til Englands þar sem læknateymi Chelsea mun fara yfir stöðu hans.
Miðjumaðurinn knái fór meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik í leik Frakklands og Búlgaríu í undankeppni HM á laugardag.
Hann mun því missa af lokaleik Frakka í undankeppninni gegn Hvíta-Rússlandi á morgun. Frakkar eru öruggir með sæti í umspili, en geta tryggt farseðilinn til Rússlands með sigri.
Chelsea mætir botnliði Crystal Palace á laugardaginn þegar enska úrvalsdeildin fer aftur á stað eftir landsleikjahlé.
Einnig ríkir óvissa með þáttöku spænska framherjans Alvaro Morata fyrir leikinn, en báðir eru leikmennirnir að glíma við meiðsli aftan í læri.
Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar eftir sjö umferðir, sex stigum á eftir toppliðum Manchester City og United.
