Skotar misstu af sæti á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi með 2-2 jafntefli gegn Slóveníu í gær. Þjálfari Skota, Gordon Strachan sagði lið sitt vera erfðafræðilega séð á eftir öðrum liðum.
„Við urðum að velja lið sem gat barist við hæð þeirra og styrk,“ sagði Strachan, en sigur á Slóvenum í gær hefði tryggt Skotlandi umspilssæti, en í staðinn er Slóvakía í öðru sætinu á markatölu.
„Erfðafræðilega séð, þá erum við á eftir. Í síðustu undankeppni vorum við næst minnsta liðið, á undan Spáni. Kannski við ættum að koma stórum konum og körlum saman og sjá hvað gerist.“
„Það getur enginn sagt að þeir séu tæknilega betri en við. En, líkamlega séð eigum við við vandamál að stríða,“ sagði Gordon Strachan.
Skotar kláruðu undankeppnina með sex leikjum án taps, en náðu ekki að fylgja grönnum sínum Englandi upp úr F-riðli.
