Valdís Þóra Jónsdóttir er í öðru sæti á Sanya Ladies Open-mótinu í golfi þegar tveir hringir hafa verið leiknir.
Skagakonan spilaði frábærlega í gær og hélt áfram uppteknum hætti í morgun.
Íslandsmeistarinn spilaði hringinn á þremur höggum undir pari og er því samtals á sjö höggum undir pari eftir tvo hringi. Hún er höggi á eftir efstu konu, Celine Boutier frá Frakklandi.
Valdís fékk sjö fugla á hringnum, sem var leikinn í nótt að íslenskum tíma, en fjóra skolla. Hún paraði svo hinar holurnar sjö.
Mótið er það næst síðasta á Evrópumótaröðinni og það áttunda sem Valdís tekur þátt í.
