„Hugmyndin að hátíðinni vaknaði í eldhúsinu hjá foreldrum mínum á sínum tíma. Upphaflega var hátíðin ein helgi en í dag spannar hún ellefu daga. Fyrstu fjórir dagarnir fara undir það sem við köllum LungA LAB, eða málstofa LungA, sem er n.k. mini-ráðstefna sem byggst hefur upp í kringum samstarf okkar við Erasmus+. Svo starfrækjum við listasmiðjur í sjö daga þar sem listamenn alls staðar að úr heiminum miðla vitneskju sinni áfram. LungA býður einnig upp á óteljandi listviðburði í heimsklassa seinnipartinn og á kvöldin alla þessa ellefu daga. Utan fyrrnefndra viðburða starfrækjum við LungA skólann í þrjá mánuði á ári en hugmyndin að honum kviknaði í kjölfar vellukkaðrar hátíðar árið 2010.“

Samstarf þeirra við Erasmus+ síðasta áratuginn hefur að sögn Bjartar átt stóran þátt í þróun LungA LAB og LungA skólans. „LungA LAB býður upp á ungmennaskiptiverkefni þar sem við höfum í gegnum árin tekið á móti mörg hundruð ungmennum víðsvegar að úr Evrópu sem tekið hafa þátt í sérstakri vinnustofu og málstofu LungA LAB. Alls hafa verið um 60 þátttakendur á ári í ungmennaskiptiverkefninu þar sem við köfum ofan í ákveðið viðfangsefni sem jafnframt hefur verið þema hátíðarinnar í heild.“
LungA skólinn er bæði minni og stærri útgáfa af hátíðinni segir Björt. „Minni af því að hann sækja bara sautján nemendur á önn auk fjögurra fastráðinna listamanna. Stærri af því að hann er starfræktur í þrjá mánuði. LungA skólinn leggur áherslu á listir, sköpun og sjálfsskoðun og er byggður í kringum listasmiðjuformið þar sem spennandi listamenn, heimspekingar, stjórnmálamenn og fleiri koma alls staðar að úr heiminum og kenna í eina til tvær vikur í senn. Færri hafa komist að en vilja nánast frá upphafi, hvort sem um ræðir LungA skólann, ungmennaskiptiverkefnin eða listasmiðjur LungA.“

Hún segir engan vafa leika á því að samstarfið við Erasmus+ hafi átt stóran þátt í að bæði LungA hátíðin og skólinn séu til í dag. „Í gegnum þetta samstarf höfum við fengið tækifæri til þess að dreifa boðskap LungA á alþjóðlegum grundvelli. Við höfum séð falleg vinatengsl mótast, ný ástarsambönd verða til sem og listræn samstarfsverkefni hefjast. Við höfum fengið að snerta við ungum sálum og veita þeim nýja trú á sjálfan sig, vekja í þeim von og jafnvel baráttuvilja til þess að gera heiminn að betri stað. Við höfum tekið þátt í að koma Seyðisfirði á kortið sem listamekka Íslands utan höfuðborgarsvæðisins og okkur hefur tekist að skapa einstakan suðupott þar sem ungt skapandi fólk getur hist og komið ástríðu sinni í farveg og á framfæri.“
