„Tímagarðurinn er í raun vegabók og varahlutir í gamla bíla koma mikið við sögu. Þeir frændur hitta stórskemmtilegt fólk á leið sinni og frægur uppgjafaróni og heimsborgari slæst í för með þeim. Það er dálítið tvist í þessu að láta tvo uppgjafalúsera kenna stráknum að meta lífið upp á nýtt,“ upplýsir Viðar og bætir við að sér finnist bókin hlýleg og notaleg með djúpum undirtón sem vegsami fjölbreytni mannlífsins.
„Þar leynist fegurðin, kannski frekar en í fagurfræðinni sem strákurinn hugðist læra. Þetta er bráðskemmtileg og vel skrifuð bók, enda er Guðmundur snilldarstílisti. Honum tekst afbragðsvel að blanda saman trega og húmor, eins og hans er von og vísa. Mannlýsingarnar í bókinni eru líka mjög vel dregnar upp og auka þannig við ánægjuna af lestrinum.“
Viðar segir titil bókarinnar, Tímagarðurinn, eiga vel við. „Tíminn er umgjörð um mannlífið og strákurinn áttar sig á því um leið og hann öðlast skilning á hvar hann stendur í lífinu. Hann er úr Garðinum og sagan fjallar líka um að rækta garðinn sinn."
