Botnlið Fjölnis í Olís-deild karla í handbolta hefur fengið vænan liðsstyrk fyrir átökin sem framundan eru í botnbaráttu deildarinnar eftir áramót. Leikstjórnandinn Logi Ágústsson er genginn í raðir félagsins en hann samdi við félagið um helgina samkvæmt heimildum Vísis.
Logi, sem er uppalinn hjá Þrótti, spilaði með Víkingi undanfarin tvö ár. Hann hélt til Danmerkur í haust og spilaði með liði í b-deild danska handboltans.
Logi er fæddur árið 1997 og á sínu 21. aldursári. Hjá Fjölni hittir hann fyrir kunningja sína úr Borgarholtsskóla þar sem hann nam. Þeirra á meðal eru hægri skyttan Kristján Örn Kristjánsson.
Hlé hefur verið gert á Olís-deildinni á meðan Evrópumótinu í Króatíu stendur. Næsti leikur Fjölnis verður gegn ÍR í Dalhúsum 31. janúar. Fjölnir hefur fimm stig á botni deildarinnar ásamt Víkingi.

