„Við vonuðumst til þess að gera miklu betur en við gerðum í dag. Við vorum að mæta góðu íslensku liði sem var að spila klókt á móti okkur og fékk góða markvörslu fyrstu 40 mínútur leiksins. Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Kristján eftir leikinn.
„Það lítur kannski út að það vanti baráttu í mitt lið en það sem mér finnst gerast er að við erum stressaðir eftir góða byrjun íslenska liðsins. Við skjótum því of snemma og erum ekki að gera það sem við kunnum og getum.
„Það er ekki fyrr en við lendum tíu mörkum undir að við byrjum að slappa af og sýna hvað við getum. Þetta tók á fyrir mig og mig dreymdi ekki í nótt að þetta færi svona. Ég átti von á betri leik hjá okkur. Leikmenn gerðu sitt besta og þetta var fín reynsla fyrir mitt unga lið. Við sýndum síðustu 20 mínútur hvað við getum. Það eru tveir leikir eftir og við þurfum að byggja á þessum 20 mínútum.“
Kristján tók samt ekkert af íslenska liðinu sem auðvitað spilaði frábærlega.
„Íslenska liðið var betra. Það kom mér ekkert á óvart. Það eru auðvitað frábærir leikmenn í liðinu og markvarslan hjá Íslandi gerði gæfumuninn. Mér finnst að við eigum að vera með betri markvörslu.“