Rúnar hefur mátt sætta sig við mikla bekkjarsetu hjá félagsliði sínu í vetur en er engu að síður brattur.
„Ég er í fínu standi. Síðan í október hef ég verið að fá meira að spila. Meira í vörninni og ég vona að ælupestin um daginn hafi ekki of mikil áhrif á mig,“ segir Rúnar en hann hefur ekki miklar áhyggjur af litlu leikformi.
„Það gæti sjálfsagt verið betra en mér líður mjög vel og held að það verði ekki vandamál. Sjálfstraustið er gott. Mér líður alltaf vel og sérstaklega hérna með strákunum. Það er gaman að vera hérna.“
Rúnar segir að það verði mjög skemmtilegt að spila við Svíana í kvöld.
„Þetta voru skemmtilegir leikir við þá í október. Þeir hafa endurheimt tvo leikmenn og það verður gaman að takast á við þá. Við höfum líka fengið Aron aftur inn og ég held að þetta séu áþekk lið,“ segir Rúnar en hvernig á að leggja Svíana?
„Vörn, markvarsla, hraðaupphlaup og agaður sóknarleikur. Allur pakkinn bara. Við þurfum bara að spila vel,“ segir Rúnar og hlær.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 17.15 og er í beinni textalýsingu á Vísi.