Handboltamaðurinn Árni Þór Sigtryggsson er genginn í raðir Hauka úr Val eftir aðeins hálft tímabil með Valsmönnum í Olís-deildinni.
Árni Þór, sem kom frá Aue til Vals fyrir tímabilið, hefur ekki staðið undir væntingum og var samningi hans við Hlíðarendafélagið sagt upp á dögunum.
Árni Þór spilaði alla fjórtán leiki Vals í Olís-deildinni og skoraði aðeins 1,7 mörk að meðaltali í leik með 49 prósent skotnýtingu. Hann hefur verið að gefa tæpar tvær stoðsendingar í leik.
Þessi annars öfluga skytta hefur spilað fína vörn með Valsliðinu og er með 1,5 löglegar stöðvanir í leik samkvæmt tölfræði HB Statz en dagar hans með Val eru taldir.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, stökk á tækifærið að bæta Árna Þór í raðir Hafnafjarðarliðsins en Haukarnir hafa átt í basli með að manna skyttustöðuna hægra megin.
Þetta verður í annað sinn sem Árni Þór spilar fyrir Hauka en hann gekk í raðir liðsins frá Akureyri árið 2005 og spilaði tvær leiktíðir. Hann skoraði þá 234 mörk í 47 leikjum frá 2005-2007 eða fimm mörk að meðaltali í leik.
Valur er í þriðja sæti Olís-deildarinnar með 21 stig eftir fjórtán leiki og mætir Selfossi í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD annað kvöld.
Haukar eru í fimmta sæti með 17 stig en þeir mæta Stjörnunni annað kvöld klukkan 20.00 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og má búast við annarri frumraun Árna Þórs í búningi Hauka í þeim leik.
