Fótbolti

Kolbeinn neitaði Gautaborg vegna fjölda leikja á gervigrasi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kolbeinn fagnar á EM 2016.
Kolbeinn fagnar á EM 2016. vísir/getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji Nantes í Frakklandi, afþakkaði tilboð IFK Gautaborg vegna þess hve margir leikir í sænsku úrvalsdeildinni fara fram á gervigrasi.

Þetta staðfestir Mats Gren, yfirmaður knattspyrnumála hjá Gautaborgarliðinu, en Gautaborg seldi Pontus Wahlberg til Watford á dögunum fyrir fúlgu fjár. Pontus var þó lánaður aftur til baka til Svíþjóðar út tímabilið.

Nantes er talið reiðubúið að láta Kolbein fara vegna meiðslasögu hans og vegna launakostnaðar, en Gren segir að Gautaborg hafi haft samband við Kolbein í von um að fá hann til félagsins.

„Við höfum verið í sambandi við félagið og leikmanninn. Leikmaðurinn hefur verið meiddur og vill ekki spila svona marga leiki á gervigrasi vegna meiðsla á hné,” sagði Gren í samtali við Aftonbaldet.

„Ég er í lagi. Síðustu þrjá mánuði hef ég ekki fundið fyrir neinu í hnénu. Nú er ég tilbúinn til þess að koma til baka á réttum tíma. Markmið mitt er að spila í febrúar,” sagði Kolbeinn í samtali við heimasíðu Nantes á dögunum.

„Ef allt gengur vel þá vil ég vera hluti af íslenska landsliðinu sem fer á HM. Það er langur vegur fyrir mig, en ef ég fæ að spila reglulega getur það verið möguleiki.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×