Enski boltinn

Blaðamenn, ekki spyrja Klopp um Meistaradeildarsigur Liverpool frá 2005

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reiður Jürgen Klopp.
Reiður Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, stýrir liðinu í kvöld í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Hann mætti á blaðamannafund í gær þar sem hann var ekki hrifinn af því að fjölmiðlamenn væru að spyrja hann um síðasta sigur Liverpool í Meistaradeildinni.

Liverpool vann Meistaradeildina síðast fyrir þrettán árum eða eftir sigur á AC Milan í úrslitaleik í Istanbul 25. maí 2005. Liðið lenti þá 3-0 undir en náð að jafna og svo að vinna leikinn í vítakeppni.

Mótherjar Liverpool í kvöld er Porto frá Portúgal. Liverpool liðið er mun sigurstranglegra liðið í viðureigninni við Portúgalana.

Klopp var alls ekki ánægður að vera spurður af því hvort lið Liverpool í dag gæti leikið eftir afrek Liverpool-liðsins frá 2005.





„Ég held ekki að liðið frá 2005 hafi hugsað um hvort það gæti unnið titilinn fyrir leik þess í sextán liða úrslitunum. Ef svo hefur verið þá kæmi það mér mjög á óvart. Ég gæti spurt Rafa (Benitez) en ég er nokkuð viss,“ svaraði Jürgen Klopp en var augljóslega mjög pirraður.

Liverpool mætti Bayer Leverkusen í sextán liða úrslitunum 2004-05 og vann þá leikina 3-1 og 3-1. Liðið sló síðan út Juventus og Chelsea á leið sinni í úrslitaleikinn.

„Við munum reyna að vinna úrslitaleikinn ef við komust þangað en það er mjög löng leið í þann leik og mörg góð fótboltalið standa í vegi okkar. Ég get ekki sagt að ég sé ekki hrifinn af því, þar sem ég hata það hreinlega, að tala næstu umferð á eftir þá sem þú ert að spila á hverjum tíma,“ sagði Klopp.

„Aðeins þar sem að ég er vinalegur og kurteis maður þá svaraði ég þessari spurningu þinni en vanalega þegar einhver spyr mig um næstu umferð þá yfirgef ég salinn strax,“ sagði Klopp.

Það má sjá upptöku af svari Jürgen Klopp hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×