Bikarmeistarar Fram eru aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Vals þegar ein umferð er eftir af Olís deild kvenna en þær geta samt ekki orðið deildarmeistarar á laugardaginn.
Framkonur klúðruðu bókstaflega deildarmeistaratitlinum með því að tapa á Ásvöllum í gær en nokkrum dögum fyrr hafði Fram unnið bikarúrslitaleik liðanna með fjórtán mörkum.
Þrjú lið eiga einn möguleika á deildarmeistaratitlinum en það eru lið Vals, Hauka og ÍBV.
Tap Framliðsins á Ásvöllum í gær þýðir að möguleikar Fram eru úr sögunni. Fram-liðið getur aðeins endað með jafnmörg stig og Valur og Haukar en Framkonur verða þó alltaf neðstar af þessum þremur liðum vegna slaks árangurs í innbyrðisleikjum efstu liðanna.
Haukakonur voru nefnilega að vinna Fram í þriðja sinn í deildinni í gær og það kemur í bakið á Safamýrarkonum.
Haukakonur þurfa bæði að treysta á sjálfan sig og Fram í lokaumferðinni. Haukaliðið þarf nefnilega að vinna sinn leik á móti Val með meira en einu marki og treysta síðan á það að Eyjakonur nái þeim ekki að stigum. Takist það verður Haukaliðið deildarmeistari.
Verði ÍBV með jafnmörg stig og lið Vals og Hauka þá verður ÍBV deildarmeistari enda með bestan árangur í innbyrðisleikjum þessara þriggja liða. Til að breyta því þyrftu Haukakonur að vinna sextán marka sigur á Val í lokaumferðinni. Hérna vegur ellefu marka sigur ÍBV á Haukum í byrjun febrúar þungt.
Valskonur eru eina liðið sem þarf bara að treysta á sig sjálfar en Valsliðinu nægir stig í lokaleiknum sínum á móti Haukum.

Valur (32 stig) verður deildarmeistari
- Með því að fá stig í lokaleiknum á móti Haukum
Haukar (30 stig) verður deildarmeistari
- Með því að vinna Val með meira en einu marki ef ÍBV vinnur ekki Fram
ÍBV (30 stig) verður deildarmeistari
- Með því að vinna Fram og að Valur fái ekki stig
Fram (30 stig) verður deildarmeistari
- Getur ekki orðið deildarmeistari
Staðan í innbyrðisleikjum liðanna:
Valur og Haukar
Valur 3 stig (+1)
Haukar 1 stig (-1)
Valur, Haukar og Fram
Haukar 7 stig (+10)
Valur 5 stig (-5)
Fram 4 stig (-5)
Valur, Haukar og ÍBV
ÍBV 6 stig (+7)
Valur 6 stig (+1)
Haukar 4 stig (-8)