Allra meina bót! Stefán Pálsson skrifar 15. apríl 2018 10:00 Vísindalegur grundvöllur Kína-lífselexírsins virðist því ansi veikur, en það breytir ekki þeirri staðreynd að þúsundir innbyrtu lyfið og töldu flestra meina bót. Royal Holloway er ein af undirstofnunum Lundúnaháskóla, þar sem nærri tíuþúsund stúdentar leggja stund á flestar helstu háskólagreinar samtímans. Húsakosturinn er glæsilegur og umhverfið fagurt, enda er svæðið vinsælt af kvikmyndagerðarfólki sem sögusvið þegar sýna á tignarlega háskóla. Það var auðkýfingurinn Thomas Holloway sem lét byggja flest gömlu skólahúsin fyrir eigin reikning á árunum í kringum 1880. Um svipað leyti reisti hann gríðarmikið sjúkrahæli fyrir fólk sem þjáðist af tímabundnum geðsjúkdómum, sem var um áratugaskeið það þekktasta sinnar tegundar í Bretlandi. Slíkar gjafir auðmanna til samfélagsins voru algengar og þjónuðu öðrum þræði þeim tilgangi að halda nafni þeirra á lofti eftir dauðann og tryggja að minning þeirra tengdist gjafmildi og stórhug frekar en auðsöfnun, einkum og sér í lagi ef uppspretta auðsins þótti lítt virðuleg. Sú var vissulega raunin í tilviki Thomasar Holloway, sem öðrum fremur lagði grunninn að nýjum stóriðnaði: framleiðslu á kynjalyfjum. Á öllum tímum hefur blómlegur iðnaður óhefðbundinna lækninga þrifist til hliðar við hin viðurkenndu læknavísindi. Skottulæknar með heimatilbúnar mixtúrur og kenningar um blóðtökur seldu þjónustu sína og hafði almenningur síst minni trú á fræðum þeirra en hinna menntuðu lækna. Gagnrýni heilbrigðisyfirvalda á starfsemi kuklara var því svarað fullum hálsi. Lengst af var framleiðsla töfralyfja þó í höndum einstaklinga sem störfuðu í sínu nærumhverfi og seldu smyrsl sín og blöndur beint til sjúklinga. Með iðnvæddu samfélagi nítjándu aldar og tilkomu fjölmiðla gat orðið breyting þar á. Holloway stofnaði innflutningsfyrirtæki í Lundúnum árið 1836. Meðal viðskiptavina hans var Ítali sem framleiddi húðkrem og seldi með góðum hagnaði. Ákvað Holloway að feta í fótspor hans. Salan gekk vel og fljótlega tók vörutegundunum að fjölga með ýmiss konar undramixtúrum sem áttu að vera allra meina bót. Slík seyði höfðu verið framleidd og seld um aldir, en snilli Holloways fólst í markaðssetningunni. Hann keypti auglýsingar fyrir of fjár í hvers kyns dagblöðum og tímaritum, þar sem stóru orðin um ágæti lyfjanna voru ekki spöruð. Slíkar auglýsingaherferðir voru nánast óþekktar á þessum tíma og ruddi Holloway því að mörgu leyti brautina fyrir neyslusamfélag og nútímaverslunarhætti í leiðinni. Aðferðafræðin gekk fullkomlega upp. Slegist var um kynjalyfin og Holloway varð einhver ríkasti maður Bretlandseyja.Horft til Austurlanda Velgengni þessi gat að sjálfsögðu af sér samkeppnisaðila. Hvarvetna mátti sjá auglýsingar um kynjalyf sem sögð voru lækna alla kvilla. Innihaldinu í lyfjaflöskunum var haldið rækilega leyndu, en oftast var þar um að ræða áfengt seyði af rótum eða berki ýmissa jurta. Dæmi var um að ýmsum málmum væri bætt út í blönduna og jafvel tjöru, olíum, sykri eða sírópi. Telja vísindamenn í dag að einungis örfá þessara lyfja hafi nokkurt gagn getað gert og þá aðeins á þröngu sviði. Í öðrum tilvikum voru mixtúrur þessar hreinlega hættulegar, í það minnsta í stórum skömmtum. Í auglýsingum fyrir kynjalyfin var yfirleitt lögð áhersla á að um ævagamlar fjölskylduuppskriftir væri að ræða og virtist það auka á trúverðugleika þeirra. Þá var algengt að blöndunum væru valin nöfn sem vísuðu til fjarlægra samfélaga, helst með fornar rætur. Birtist þetta í nöfnum og myndmáli á umbúðum fjölmargra mixtúra. Frá Bretlandi breiddist hin nýja framleiðslugrein út næstu áratugina. Í Danmörku hófst kynjalyfjaiðnaðurinn fyrir alvöru árið 1871 þegar uppgjafahermaðurinn Harald Valdemar Mansfeld-Büllner hóf framleiðslu og sölu á Brama-lífselexír. Elexír þessi var í fyrstu seldur sem meltingarstyrkjandi bitter til að innbyrða fyrir mat, en fljótlega fjölgaði kvillunum sem honum var ætlað að lækna. „Braminn“, eins og lyfið var almennt kallað, var markaðssettur með nákvæmlega sama hætti og svipaðar blöndur í Bretlandi. Nafnið vísaði í fornindversk trúarbrögð og miklu var kostað til að auglýsa vöruna í blöðum. Þá voru umbúðirnar stásslegri og litskrúðugri en títt var um neysluvarning á þessum árum. Danir tóku Bramanum höndum tveim og gat því ekki liðið á löngu uns farið var að selja vöruna á Íslandi. Mansfeld-Büllner var tengdur Íslandi í gegnum fjölskylduvensl og kann það að hafa átt sinn þátt í að fyrirtækið lagði sig sérstaklega fram um að sinna þessum litla markaði. Hvað sem því líður var Brama-lífselexírinn rækilega auglýstur í íslenskum blöðum. Haft var samband við ritstjóra og þeir hvattir til að fjalla um undramátt lyfsins gegn greiðslu, auk þess sem vonin um auglýsingatekjur var ýmsum þeirra næg hvatning til að fjalla að minnsta kosti ekki á neikvæðan hátt um mixtúruna. Á árunum um og eftir 1880 mátti kaupa Brama út um allt land og salan var mikil, raunar svo mikil að stjórnmálamenn sáu ofsjónum yfir fjáraustrinum. Læknar höfðu sömuleiðis áhyggjur af því að almenningur tæki blöndur skottulækna fram yfir viðurkennd læknisráð og að í mörgum tilvikum væri hreinlega um hættuleg meðul að ræða. Þannig staðhæfði Schriebeck landlæknir, sem fyrstur tók að amast opinberlega við Bramanum árið 1882, að ofnotkun lyfsins hefði valdið dauða fjölmargra íslenskra barna árin á undan.Skiptar skoðanir Landlæknir skrifaði nokkrar blaðagreinar gegn kynjalyfjunum og þá einkum Bramanum, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að ef landsmenn teldu sig á annað borð þurfa að innbyrða slíkar blöndur, væri illskárra að þær væru framleiddar í landinu. Í kjölfarið hóf lyfsali í Reykjavík framleiðslu á elexír með vottorði Schriebecks þess efnis að innihaldið hefði sömu áhrif og Brama-lífselexírinn en kostaði minna. Danska fyrirtækið brást ókvæða við sem vænta mátti og vandaði landlækni ekki kveðjurnar. Ekki virtust neytendur þó taka skrif læknisins mjög alvarlega, í það minnsta dró lítið úr sölu Bramans næstu árin, þrátt fyrir harða samkeppni frá framleiðendum annarra kynjalyfja, svo sem Brama-lífsessensins, sem sagður var enn öflugri vörn gegn hvers kyns kvillum. Högnuðust kaupmenn og útgefendur auglýsingablaða vel á þessum átökum, en almenningur eyddi svimandi upphæðum af litlum efnum í fánýtar lyfjablöndur. Um 1892 kom fram nýtt kynjalyf sem átti eftir að fella Brama-lífselexírinn af stalli sem uppáhaldsdrykkur auðtrúa Íslendinga. Athafnamaðurinn Valdemar Petersen hóf þá að selja til landsins Kína-lífselexír í stórum stíl. Loforðin um mátt lyfsins voru enn stórfenglegri, kynningarbæklingarnir veglegri og umbúðirnar glæsilegri en á Bramanum. Á flöskumiðanum mátti sjá Kínverja halda á litlu glasi og varð það skjótt eitt kunnasta vörumerkið í huga landsmanna. Á meðan auglýsingarnar fyrir Brama-elexírinn höfðu einkum byggst upp á vitnisburðum danskra notenda um undramátt lyfsins, safnaði Valdimar Petersen frásögnum íslenskra viðskiptavina og jafnvel lækna. Reyndist það vænlegt til árangurs og um aldamótin gnæfði Kína-lífselexírinn yfir önnur kynjalyf á íslenska markaðnum. Önnur snjöll sölubrella Petersens var sú að gefa sífellt í skyn að keppinautarnir væru að selja ófullkomnar hermiblöndur. Hefur honum verið eignað slagorðið „varist eftirlíkingar“, sem reynst hefur lífseigt í íslenskum auglýsingum. Fulltrúar læknastéttarinnar á þingi komu krók á móti bragði og fengu árið 1899 samþykktan háan innflutningstoll á kynjalyf. Valdimar Petersen var hins vegar fljótur að hugsa og flutti gríðarmikinn lager til landsins áður en tollheimtan tók gildi. Þegar sneyðast tók um birgðirnar lét hann reisa verksmiðju á Seyðisfirði til framleiðslunnar. Hefur Smári Geirsson fjallað um sögu Seyðisfjarðarverksmiðjunnar í bók sinni Frá eldsmiðju til elexírs í Safni til iðnsögu Íslendinga. Enn reyndu þingmenn að torvelda framleiðslu Petersens árið 1907 þegar sett voru aðflutningsgjöld á hráefnin sem þurfti til framleiðslunnar. Brást sá danski þá við með því að stækka verksmiðjuna og koma sér upp risalager, sumir sögðu til margra áratuga, áður en lögin kæmu til framkvæmda. Enn hélt glíman þó áfram og lagði þingið loks gjald á allar óseldar bitter-birgðir í landinu. Þegar áfengisbann tók endanlega gildi í ársbyrjun 1915 varð sala á Kína-lífselexírnum sjálfkrafa ólögleg. Stóð Valdimar Petersen þá í nokkru stappi við stjórnvöld um hvernig ráðstafa skyldi þeim 60 þúsund meðalaflöskum sem óseldar væru. Hótaði Petersen að hella niður öllum lagernum og létu ráðamenn sig þá, enda vildu þeir ekki verða af skattinum. Var því veitt undanþága fyrir sölu þessum síðustu birgðum, þrátt fyrir bannlög og virðast þær hafa klárast á skömmum tíma – í það minnsta hættu auglýsingar um Kína-lífselexír að birtast í blöðunum. Í tengslum við ritun bókar sinnar, sem getið var um hér að framan, fékk Smári Geirsson lyfjafræðideild Háskólans til að efnagreina innihald gamallar flösku með elexír þessum. Ekki fundust þar merki um nein undraefni sem benda til sérstaks lækningarmáttar. Virðist meira að segja óljóst hvort við framleiðsluna hafi verið soðinn kínabörkur, sem átti þó að vera lykilhráefni að sögn Valdimars Petersens. Kínabörkur er þrátt fyrir nafnið ættaður frá Suður-Ameríku og var þekkt lækningajurt, sem meðal annars hefur verið nýtt til framleiðslu á kíníni. Vísindalegur grundvöllur Kína-lífselexírsins virðist því ansi veikur, en það breytir ekki þeirri staðreynd að þúsundir innbyrtu lyfið og töldu flestra meina bót. Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Þéna töluvert þrátt fyrir að vera ekki til Lífið Sigurjón minnist David Lynch: „Jonni, við verðum að gera eitthvað fyrir Ísland“ Bíó og sjónvarp Heill hljóðheimur Hildar fer afturábak Tónlist Upprunalegt handrit „Mr. Tambourine man“ seldist á 70 milljónir Tónlist Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Krakkatían: Grænland, galdrakarl og Greppikló Lífið Verð alltaf stoltari og stoltari af mömmu Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Royal Holloway er ein af undirstofnunum Lundúnaháskóla, þar sem nærri tíuþúsund stúdentar leggja stund á flestar helstu háskólagreinar samtímans. Húsakosturinn er glæsilegur og umhverfið fagurt, enda er svæðið vinsælt af kvikmyndagerðarfólki sem sögusvið þegar sýna á tignarlega háskóla. Það var auðkýfingurinn Thomas Holloway sem lét byggja flest gömlu skólahúsin fyrir eigin reikning á árunum í kringum 1880. Um svipað leyti reisti hann gríðarmikið sjúkrahæli fyrir fólk sem þjáðist af tímabundnum geðsjúkdómum, sem var um áratugaskeið það þekktasta sinnar tegundar í Bretlandi. Slíkar gjafir auðmanna til samfélagsins voru algengar og þjónuðu öðrum þræði þeim tilgangi að halda nafni þeirra á lofti eftir dauðann og tryggja að minning þeirra tengdist gjafmildi og stórhug frekar en auðsöfnun, einkum og sér í lagi ef uppspretta auðsins þótti lítt virðuleg. Sú var vissulega raunin í tilviki Thomasar Holloway, sem öðrum fremur lagði grunninn að nýjum stóriðnaði: framleiðslu á kynjalyfjum. Á öllum tímum hefur blómlegur iðnaður óhefðbundinna lækninga þrifist til hliðar við hin viðurkenndu læknavísindi. Skottulæknar með heimatilbúnar mixtúrur og kenningar um blóðtökur seldu þjónustu sína og hafði almenningur síst minni trú á fræðum þeirra en hinna menntuðu lækna. Gagnrýni heilbrigðisyfirvalda á starfsemi kuklara var því svarað fullum hálsi. Lengst af var framleiðsla töfralyfja þó í höndum einstaklinga sem störfuðu í sínu nærumhverfi og seldu smyrsl sín og blöndur beint til sjúklinga. Með iðnvæddu samfélagi nítjándu aldar og tilkomu fjölmiðla gat orðið breyting þar á. Holloway stofnaði innflutningsfyrirtæki í Lundúnum árið 1836. Meðal viðskiptavina hans var Ítali sem framleiddi húðkrem og seldi með góðum hagnaði. Ákvað Holloway að feta í fótspor hans. Salan gekk vel og fljótlega tók vörutegundunum að fjölga með ýmiss konar undramixtúrum sem áttu að vera allra meina bót. Slík seyði höfðu verið framleidd og seld um aldir, en snilli Holloways fólst í markaðssetningunni. Hann keypti auglýsingar fyrir of fjár í hvers kyns dagblöðum og tímaritum, þar sem stóru orðin um ágæti lyfjanna voru ekki spöruð. Slíkar auglýsingaherferðir voru nánast óþekktar á þessum tíma og ruddi Holloway því að mörgu leyti brautina fyrir neyslusamfélag og nútímaverslunarhætti í leiðinni. Aðferðafræðin gekk fullkomlega upp. Slegist var um kynjalyfin og Holloway varð einhver ríkasti maður Bretlandseyja.Horft til Austurlanda Velgengni þessi gat að sjálfsögðu af sér samkeppnisaðila. Hvarvetna mátti sjá auglýsingar um kynjalyf sem sögð voru lækna alla kvilla. Innihaldinu í lyfjaflöskunum var haldið rækilega leyndu, en oftast var þar um að ræða áfengt seyði af rótum eða berki ýmissa jurta. Dæmi var um að ýmsum málmum væri bætt út í blönduna og jafvel tjöru, olíum, sykri eða sírópi. Telja vísindamenn í dag að einungis örfá þessara lyfja hafi nokkurt gagn getað gert og þá aðeins á þröngu sviði. Í öðrum tilvikum voru mixtúrur þessar hreinlega hættulegar, í það minnsta í stórum skömmtum. Í auglýsingum fyrir kynjalyfin var yfirleitt lögð áhersla á að um ævagamlar fjölskylduuppskriftir væri að ræða og virtist það auka á trúverðugleika þeirra. Þá var algengt að blöndunum væru valin nöfn sem vísuðu til fjarlægra samfélaga, helst með fornar rætur. Birtist þetta í nöfnum og myndmáli á umbúðum fjölmargra mixtúra. Frá Bretlandi breiddist hin nýja framleiðslugrein út næstu áratugina. Í Danmörku hófst kynjalyfjaiðnaðurinn fyrir alvöru árið 1871 þegar uppgjafahermaðurinn Harald Valdemar Mansfeld-Büllner hóf framleiðslu og sölu á Brama-lífselexír. Elexír þessi var í fyrstu seldur sem meltingarstyrkjandi bitter til að innbyrða fyrir mat, en fljótlega fjölgaði kvillunum sem honum var ætlað að lækna. „Braminn“, eins og lyfið var almennt kallað, var markaðssettur með nákvæmlega sama hætti og svipaðar blöndur í Bretlandi. Nafnið vísaði í fornindversk trúarbrögð og miklu var kostað til að auglýsa vöruna í blöðum. Þá voru umbúðirnar stásslegri og litskrúðugri en títt var um neysluvarning á þessum árum. Danir tóku Bramanum höndum tveim og gat því ekki liðið á löngu uns farið var að selja vöruna á Íslandi. Mansfeld-Büllner var tengdur Íslandi í gegnum fjölskylduvensl og kann það að hafa átt sinn þátt í að fyrirtækið lagði sig sérstaklega fram um að sinna þessum litla markaði. Hvað sem því líður var Brama-lífselexírinn rækilega auglýstur í íslenskum blöðum. Haft var samband við ritstjóra og þeir hvattir til að fjalla um undramátt lyfsins gegn greiðslu, auk þess sem vonin um auglýsingatekjur var ýmsum þeirra næg hvatning til að fjalla að minnsta kosti ekki á neikvæðan hátt um mixtúruna. Á árunum um og eftir 1880 mátti kaupa Brama út um allt land og salan var mikil, raunar svo mikil að stjórnmálamenn sáu ofsjónum yfir fjáraustrinum. Læknar höfðu sömuleiðis áhyggjur af því að almenningur tæki blöndur skottulækna fram yfir viðurkennd læknisráð og að í mörgum tilvikum væri hreinlega um hættuleg meðul að ræða. Þannig staðhæfði Schriebeck landlæknir, sem fyrstur tók að amast opinberlega við Bramanum árið 1882, að ofnotkun lyfsins hefði valdið dauða fjölmargra íslenskra barna árin á undan.Skiptar skoðanir Landlæknir skrifaði nokkrar blaðagreinar gegn kynjalyfjunum og þá einkum Bramanum, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að ef landsmenn teldu sig á annað borð þurfa að innbyrða slíkar blöndur, væri illskárra að þær væru framleiddar í landinu. Í kjölfarið hóf lyfsali í Reykjavík framleiðslu á elexír með vottorði Schriebecks þess efnis að innihaldið hefði sömu áhrif og Brama-lífselexírinn en kostaði minna. Danska fyrirtækið brást ókvæða við sem vænta mátti og vandaði landlækni ekki kveðjurnar. Ekki virtust neytendur þó taka skrif læknisins mjög alvarlega, í það minnsta dró lítið úr sölu Bramans næstu árin, þrátt fyrir harða samkeppni frá framleiðendum annarra kynjalyfja, svo sem Brama-lífsessensins, sem sagður var enn öflugri vörn gegn hvers kyns kvillum. Högnuðust kaupmenn og útgefendur auglýsingablaða vel á þessum átökum, en almenningur eyddi svimandi upphæðum af litlum efnum í fánýtar lyfjablöndur. Um 1892 kom fram nýtt kynjalyf sem átti eftir að fella Brama-lífselexírinn af stalli sem uppáhaldsdrykkur auðtrúa Íslendinga. Athafnamaðurinn Valdemar Petersen hóf þá að selja til landsins Kína-lífselexír í stórum stíl. Loforðin um mátt lyfsins voru enn stórfenglegri, kynningarbæklingarnir veglegri og umbúðirnar glæsilegri en á Bramanum. Á flöskumiðanum mátti sjá Kínverja halda á litlu glasi og varð það skjótt eitt kunnasta vörumerkið í huga landsmanna. Á meðan auglýsingarnar fyrir Brama-elexírinn höfðu einkum byggst upp á vitnisburðum danskra notenda um undramátt lyfsins, safnaði Valdimar Petersen frásögnum íslenskra viðskiptavina og jafnvel lækna. Reyndist það vænlegt til árangurs og um aldamótin gnæfði Kína-lífselexírinn yfir önnur kynjalyf á íslenska markaðnum. Önnur snjöll sölubrella Petersens var sú að gefa sífellt í skyn að keppinautarnir væru að selja ófullkomnar hermiblöndur. Hefur honum verið eignað slagorðið „varist eftirlíkingar“, sem reynst hefur lífseigt í íslenskum auglýsingum. Fulltrúar læknastéttarinnar á þingi komu krók á móti bragði og fengu árið 1899 samþykktan háan innflutningstoll á kynjalyf. Valdimar Petersen var hins vegar fljótur að hugsa og flutti gríðarmikinn lager til landsins áður en tollheimtan tók gildi. Þegar sneyðast tók um birgðirnar lét hann reisa verksmiðju á Seyðisfirði til framleiðslunnar. Hefur Smári Geirsson fjallað um sögu Seyðisfjarðarverksmiðjunnar í bók sinni Frá eldsmiðju til elexírs í Safni til iðnsögu Íslendinga. Enn reyndu þingmenn að torvelda framleiðslu Petersens árið 1907 þegar sett voru aðflutningsgjöld á hráefnin sem þurfti til framleiðslunnar. Brást sá danski þá við með því að stækka verksmiðjuna og koma sér upp risalager, sumir sögðu til margra áratuga, áður en lögin kæmu til framkvæmda. Enn hélt glíman þó áfram og lagði þingið loks gjald á allar óseldar bitter-birgðir í landinu. Þegar áfengisbann tók endanlega gildi í ársbyrjun 1915 varð sala á Kína-lífselexírnum sjálfkrafa ólögleg. Stóð Valdimar Petersen þá í nokkru stappi við stjórnvöld um hvernig ráðstafa skyldi þeim 60 þúsund meðalaflöskum sem óseldar væru. Hótaði Petersen að hella niður öllum lagernum og létu ráðamenn sig þá, enda vildu þeir ekki verða af skattinum. Var því veitt undanþága fyrir sölu þessum síðustu birgðum, þrátt fyrir bannlög og virðast þær hafa klárast á skömmum tíma – í það minnsta hættu auglýsingar um Kína-lífselexír að birtast í blöðunum. Í tengslum við ritun bókar sinnar, sem getið var um hér að framan, fékk Smári Geirsson lyfjafræðideild Háskólans til að efnagreina innihald gamallar flösku með elexír þessum. Ekki fundust þar merki um nein undraefni sem benda til sérstaks lækningarmáttar. Virðist meira að segja óljóst hvort við framleiðsluna hafi verið soðinn kínabörkur, sem átti þó að vera lykilhráefni að sögn Valdimars Petersens. Kínabörkur er þrátt fyrir nafnið ættaður frá Suður-Ameríku og var þekkt lækningajurt, sem meðal annars hefur verið nýtt til framleiðslu á kíníni. Vísindalegur grundvöllur Kína-lífselexírsins virðist því ansi veikur, en það breytir ekki þeirri staðreynd að þúsundir innbyrtu lyfið og töldu flestra meina bót.
Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Þéna töluvert þrátt fyrir að vera ekki til Lífið Sigurjón minnist David Lynch: „Jonni, við verðum að gera eitthvað fyrir Ísland“ Bíó og sjónvarp Heill hljóðheimur Hildar fer afturábak Tónlist Upprunalegt handrit „Mr. Tambourine man“ seldist á 70 milljónir Tónlist Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Krakkatían: Grænland, galdrakarl og Greppikló Lífið Verð alltaf stoltari og stoltari af mömmu Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira